144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[17:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það hefur líka komið fram í umræðunni hér varðandi það hvort nægilegt fjármagn fylgi þessu verkefni áfram, þessu tilraunaverkefni, samstarfsverkefni. Fram hefur komið að fjármálaráðuneytið hefur ákveðnar áhyggjur af því, og ég hef líka bent á það og við þekkjum það að í samvinnu sveitarfélaga varðandi málefni fatlaðra hafa komið fram áhyggjur sveitarstjórnarmanna yfir því að málaflokkurinn sé ekki nægilega fjármagnaður í dag. Telur hv. þingmaður að taka þurfi þessi mál upp varðandi kostnaðargreiningu svo að við séum ekki að fara af stað með eitthvað sem er þá ekki tryggt að nægilegt fjármagn fylgi verkefninu og að notendur þjónustunnar geti verið öruggir um það og að sveitarfélög geti líka boðið upp á þjónustuna án þess að þurfa að óttast að það verði þeim mjög erfitt?

Við vitum að sveitarfélög eru auðvitað mjög mismunandi á vegi stödd og kannski örfáir einstaklingar sem nýta sér svona þjónustu í viðkomandi sveitarfélagi, það getur verið mikill fjárhagslegur, ég segi kannski ekki baggi, en það er auðvitað mismunandi milli sveitarfélaga eftir stærð þeirra að ráða við slíkt. Það er mjög uppáfallandi hve margir einstaklingar hugsanlega kæmu til með að nýta svona þjónustu á milli sveitarfélaga. Telur hv. þingmaður að jöfnunarsjóður komi til með að brúa það bil og það sé nægilega tryggt eins og það er í dag?