144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[17:38]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki ætlun mín að lengja þessa ágætu umræðu en það er samt eiginlega ekki annað hægt en að stinga sér aðeins inn í hana. Mér er nú málið skylt og okkur í þingflokki Bjartrar framtíðar þar sem notendastýrð persónuleg aðstoð og þjónusta við fatlaða hefur hvílt mjög mikið á okkur. Guðmundur Steingrímsson, hv. þingmaður Bjartrar framtíðar, var einn af baráttumönnunum fyrir NPA og sat sem formaður verkefnisins um notendastýrða persónulega aðstoð árin 2011–2013. Einnig er gaman að geta þess að Freyja Haraldsdóttir, hv. varaþingmaður Bjartar framtíðar, sem tekið hefur sæti á Alþingi, er auðvitað einn af helstu baráttumönnum fyrir verkefninu. Og þó að það væri nú ekki nema bara í nafni Freyju, sem situr ekki á þingi núna, finnst mér ekki annað hægt en að stinga mér aðeins inn í umræðuna.

Þetta frumvarp er, eins og heyrst hefur á umræðunni, mikið fagnaðarefni, ég tek undir það. Ég fagna því að það sé komið fram og ég óska þess að það hljóti góða afgreiðslu og hvet hv. velferðarnefnd auðvitað í því efni. Ég tek undir það sem fram kom í umræðunni fyrr í dag varðandi smávægilegar athugasemdir, en þær eru svo sem ekki aðalatriði. Aðalatriðið er að frumvarpið sé komið fram og að vafamálum sem komið hafa upp í sambandi við tilraunaverkefnið sé svarað og að lagastoð verði fyrir reglugerð o.s.frv., en einnig að tryggt sé að verkefnið haldi áfram.

Að því sögðu er mikilvægt að blása eldmóði í eða í það minnsta að láta smá eldmóð fylgja með frumvarpinu héðan úr 1. umr. til nefndarinnar og minna á að þetta er framlenging á tilraunaverkefni sem samþykkt var 2010 þó að það hafi ekki komist á laggirnar fyrr en árið 2012. Þar kom til að einhverju marki flækjustig sem ég kannast nú við og kom aðeins að í fyrra lífi mínu sem sveitarstjórnarmaður. Upphaflega var gert ráð fyrir að tilraunaverkefnið mundi standa út árið 2014 og að þá næðist að meta reynslu af verkefninu, en kannski vegna þess hve langan tíma það tók að koma því á koppinn er nú verið að framlengja verkefnið um tvö ár. Auðvitað hefði verið langskemmtilegast að vera á þessum tímapunkti kominn í næsta skref en framlengingin og frumvarpið eru vissulega fagnaðarefni samt sem áður.

Mig langar aðeins að tala um notendastýrða persónulega aðstoð, sem ég tel að sé eiginlega stórbylting í mannréttindamálum á Íslandi. Í flestum málum þegar kemur að þjónustu og tilhögun þjónustu hef ég verið mikill talsmaður blandaðra leiða, svo mikill að ég hef stundum verið uppnefndur af félögum mínum „blöndungurinn“ og þigg það uppnefni með þökkum. Þegar kemur að þjónustu og aðstoð við fatlaða er ég mikill talsmaður þess að við bjóðum upp á blandaða leið, að þjónustuþeginn hafi úr fleiri en einu úrræði að velja. Þó svo að ég sé fullviss um að notendastýrð persónuleg aðstoð sé framtíðin, í það minnsta fyrir mjög marga, þá vitum við líka að hún hentar ekki öllum og er mikilvægt að við höfum það í huga varðandi framtíðina að við séum hér ekki með tilraunaverkefni sem sé spurning um já eða nei, að það eigi að taka við af öllum öðrum þjónustuboðum, heldur að fólk geti valið sér þjónustuboð.

Stundum þegar við ræðum um mannréttindi og jafnræði á Íslandi fæ ég á tilfinninguna að baráttan standi um það að allir einstaklingar haldi rétti sínum, að allir einstaklingar haldi þeirri getu og þeirri aðstöðu sem þeir hafa nú þegar og að það sé næstum því bónus ef hægt sé að bæta rétt eða aðstöðu fólks. Ég held að það sé mjög mikilvægt í umræðunni að við tölum alltaf um mannréttindi, og ekki bara út frá því að menn missi ekki mannréttindi sín heldur að menn hafi sem jöfnust mannréttindi. Við höfum það mjög gott, eins og sá sem hér stendur og getur staðið hér hjálparlaust, og það er mannréttindaspursmál að aðrir sem ekki geta það hjálparlaust hafi þá hjálp til þess að geta staðið hér eins og ég. Notendastýrð persónuleg aðstoð er mjög mikilvægt tæki til þess.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem hefur komið fram í ágætum ræðum hjá hv. þingmönnum fyrr í umræðunni, ég treysti því að umræðan skili sér til hv. velferðarnefndar, en mig langar aðeins til að minnast á nokkra mikilvæga punkta sem mikilvægt er að hafa í huga. Ég nefni fyrst getu sveitarfélaga. Við vitum að sveitarfélög eru misstór og miskraftmikil og hafa mjög mismikla getu í velferðarkerfi sínu. Það er mikilvægt að við horfum til þess þegar kemur að utanumhaldi um þessa þjónustu og ekki síður um fjármögnunina. Ég get tekið undir það með hv. þm. Árna Páli Árnasyni, sem sagði í andsvari áðan að 80% af fjármögnuninni komi nú þegar í gegnum jöfnun og að erfitt sé að fara mikið lengra en það. En geta sveitarfélaganna getur haft áhrif á getuna þar og er mikilvægt að við höfum það í huga.

Eitt af af stóru fagnaðarefnunum við þetta ágæta frumvarp er að hér er skýrð staða starfsmannsins. Þó svo að við fögnum frumvarpinu og þróuninni yfir í notendastýrða persónulega aðstoð fyrir hönd þeirra sem njóta aðstoðarinnar megum við auðvitað ekki gleyma því að þeir sem veita þjónustuna, starfsmennirnir, eru ekki bara starfsmenn heldur líka einstaklingar og er mjög mikilvægt að við höldum utan um réttindi þeirra. Mikilvægt er að í sambandi starfsmanns og vinnuveitanda séum við ekki bara að hugsa um rétt þess sem nýtur heldur líka starfsmannsins, og það er sennilega leitun að nánara samstarfi tveggja einstaklinga. Þá er mjög mikilvægt að starfsmaðurinn haldi réttindum sínum og að það sé ekki bara réttur notandans að geta valið sér starfsmann sem honum líkar við og hagað þjónustunni eftir því, heldur líka starfsmannsins, að honum sé gert kleift að njóta sín í starfi. Ég verð að taka undir með nokkrum hv. þingmönnum í umræðunni um að það má spyrja sig um þá launaumgjörð, þær upphæðir sem maður hefur heyrt hérna, hvernig á því er haldið, en ég vil vísa því inn í framtíðina og leyfi mér að horfa bjartsýnn fram á veg.

Ég minntist aðeins á það í andsvari áðan við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að ég hefði orðið þess áskynja í störfum mínum á sveitarfélagasviðinu að verið hefði meiri eftirspurn eftir þessari þjónustu en tilraunaverkefnið bauð upp á. Það er mjög sterk tilfinning okkar sem höfum eitthvað komið að málunum og einnig, held ég, meðal samtaka fatlaðra að mikil leynd þörf sé í kerfinu. Margir fatlaðir hafa fengið mikla þjónustu eða aðstoð frá sínum nánustu, frá fjölskyldumeðlimum, jafnvel foreldrum og ýmsum öðrum, sem hefur í raun verið fyrir utan hið opinbera þjónustukerfi. Og vitaskuld hefur þá opinbera kerfið sloppið við fyrirhöfn og ekki síður kostnað þegar kemur að þessu. Það er mjög mikilvægt í framhaldinu þegar við þróum þessa þjónustu sem er mikilvæg mannréttindaþjónusta og á að vera öllum opin, að við göngum inn í það með opnum huga varðandi mögulegan kostnað, vegna þess að ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því að það eru allar líkur á því að kostnaðurinn verði meiri við þessa þjónustu en gert er ráð fyrir. En eins og ég sagði áðan þá er hér um mannréttindamál að ræða, þetta er ekki bara hvaða þjónusta sem er, þetta er spurning um að við sem samfélag tökum höndum saman til að tryggja að allir meðlimir samfélagsins fái að njóta sín og fái að taka þátt í samfélaginu eftir bestu getu. Það er, leyfi ég mér að fullyrða, mikilvægara verkefni en mörg önnur sem við gleðjumst yfir og sem við setjum fjármagn í í þessum sal. Ég hef lokið máli mínu.