144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[17:53]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv þingmanni fyrir fyrirspurnina, andsvarið, og þakka brýninguna. Ég tek undir það að mannréttindavinkillinn skiptir ekki bara máli þegar kemur að notendastýrðri persónulegri aðstoð heldur líka í öðrum leiðum, hverjar sem þær eru og hvort sem þær eru nýjar eða gamlar. Það er kannski sérstaklega ástæða til að skoða ofan í þau mál með þá þjónustu sem hefur meiri hefð á bak við sig, að við höldum mannréttindavinklinum hátt á lofti.

Þingmaðurinn spurði mig sérstaklega út í verkferla og aðferðafræði hjá sveitarfélögunum. Ég verð að taka undir það með hv. þingmanni, eins og ég minntist aðeins á í ræðu minni, að við vitum að geta sveitarfélaganna er mjög misjöfn enda eru þau mjög misstór og með missterk velferðarkerfi. Það skiptir mjög miklu máli að við séum með ákveðinn standard í svona þjónustu, sérstaklega þegar við setjum um hana lög.

Það er dálítið erfitt fyrir mig, gamlan sveitarstjórnarmanninn, að mæla með því að Alþingi setji niður stífu regluna af því að ég veit að það er sterkur vilji hjá sveitarfélögunum að eiga þátt í þeirri vinnu. En ég mundi vilja brýna hv. velferðarnefnd til þess þegar hún á samtal við Samband íslenskra sveitarfélaga að ýta á eftir því að settar verði ákveðnar grunnreglur, samræmdar, og að það sé skoðað sérstaklega með flutning einstaklinga á milli sveitarfélaga. Það kallar (Forseti hringir.) auðvitað á svipaðar reglur um það hvernig fólk kemst inn í kerfið.