144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[17:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svörin frá hv. þingmanni. Það er svo sannarlega rétt ábending hjá þingmanninum að Alþingi á náttúrlega ekki að grípa fram fyrir hendurnar á sveitarstjórnum sem hafa jú fengið það verkefni að sjá um málefni fatlaðs fólks. Ég held hins vegar að það sé alveg rosalega mikilvægt að við eigum þetta samtal og vinnum þetta í góðri samvinnu. Það væri mjög gegn anda allrar hugmyndafræði um notendastýrða persónulega aðstoð ef óvart skrifast inn í hana átthagafjötrar sem gera að verkum að fólk getur ekki flutt eins og það kýs að gera, hvort sem það er til að sækja skóla eða vinnu eða hvað það nú er annað sem fólk vill gera í lífinu.

Í því sambandi langar mig að spyrja hv. þingmann — hann kom reyndar inn á að það væri kannski erfitt að ríkið kæmi meira inn í kostnaðinn en það gerir nú þegar — hvort hann sé sammála mér um að við ættum alla vega að íhuga hvort við ættum að hafa fjármögnunina á þessum málum með öðrum hætti, að sveitarfélagið borgi fyrst ákveðna viðmiðun, segjum 20 tíma, á viku í notendastýrða persónulega aðstoð og ríkið borgi svo bara rest, hvort sem það er einn tími í viðbót eða 60 eða hvað það nú er.

Ég spyr hvort hv. þingmaður sé sammála mér í því að þetta sé eitthvað sem við ættum að skoða (Forseti hringir.) til að koma þessum málum í gott horf.