144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[18:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er góð ábending hjá hv. þingmanni. Hvernig getum við sem best tryggt þær breytingar sem yrðu ef við færum inn í þau lög sem tryggja vinnuvernd og hvíldartíma viðkomandi launamanna? Ég tel að við verðum að gera það í góðu samráði við stéttarfélögin svo að þetta verði ekki fordæmisgefandi og aðrir gangi á lagið. Ég hef vissan skilning á því að í sumum tilfellum verði að sníða slík sérhæfð störf eftir aðstæðum. Það á við í þessu tilfelli. Ég tel að við eigum að lenda þessu í góðri sátt en standa vörð um réttindi viðkomandi fólks. Það kom fram hér áðan að það fólk sem hefur verið að sinna þessum störfum frá því að þetta tilraunaverkefni byrjaði árið 2011 sé á allt of lágum launum. Við verðum að horfa til þess að bæta kjör þess. Við verðum líka að tryggja réttindi þess hvað þetta varðar.

Varðandi það hvort sveitarfélögin eigi að hafa umsjón með útfærslunni á þessu verkefni og samningum milli neytendaþjónustunnar og sveitarfélagsins eða hvort ríkið eigi að gera það þá held ég að hvort tveggja geti gengið. Það verður að nást eitthvert samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum. Við vitum að grunnskólarnir voru færðir til sveitarfélaganna fyrir mörgum árum en samt er ákveðið eftirlit með framfylgni grunnskólalaganna af hálfu ríkisins. Ég get alveg séð eitthvert slíkt módel fyrir mér, (Forseti hringir.) nema sveitarfélögin vilji sjálf taka það að sér.