144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[18:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir að gefa okkur innsýn í aðkomu hans að málinu sem ég fagna og tel afar gott og mikilvægt og raunar hugmyndafræðina sem þetta verkefni fangar vera til algjörrar fyrirmyndar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um tvennt og það varðar kannski ekki beinlínis notandann sjálfan þegar þjónustan er komin á heldur miklu frekar þann endapunkt, eigum við að segja, sem við sjáum fyrir okkur í óskilgreindri framtíð þegar allir eru farnir að geta nýtt sér notendastýrða persónulega aðstoð, allir fullorðnir fatlaðir einstaklingar sem hafa nægilega sterka stöðu til þess að geta haldið utan um þær flóknu persónulegu aðstæður sem það er sannarlega að vera með notendastýrða persónulega aðstoð. Þá langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður sjái fyrir sér eða hvort það hafi verið rætt í þessari vinnu hvernig við undirbúum börn með fötlun undir það að verða síðar notendur persónulegrar aðstoðar. Hún er oft vandmeðfarin brúin frá því að vera háður sérkennslu eða sértækum stuðningi inni í bekk í blöndun eða þá í sérskóla og oft er vandinn sá að börn sem búa við fötlun að þau eru nánast skermuð af frá veruleikanum þó að þau búi við öfluga blöndun.

Ég vil spyrja þingmanninn hvort hann sjái fyrir sér að það verði einhvers konar aðlögun eða þjálfun (Forseti hringir.) eða nánast að segja menntun barna til þess að (Forseti hringir.) þau geti síðar verið notendur þjónustu af þessu tagi.