144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[18:32]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir afar athyglisverða spurningu. Eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á er þetta flókið í framkvæmd, vegna þess að notandi er í raun verkstjóri og skipuleggjandi þjónustunnar og það er ný nálgun, en um leið er það sú hlið sem tryggir gæðin í þjónustunni, má segja, vegna þess að notandinn skipuleggur hana og er verkstjórinn í þjónustunni. Í því ljósi er spurningin afar athyglisverð. Það er mjög mikilvægt að undirbúa börn undir það að nýta sér þessa þjónustu og hvernig þau geti þá gert það. En nei, við höfum ekki tekið það sérstaklega fyrir. Starfshópurinn sem ég er í fékk kynningu á verkefninu en ég man ekki til þess að þetta hafi verið rætt þannig að ég skal alveg viðurkenna að ég er ekki búinn að úthugsa þetta. En spurningin er afar góð og ég mun skoða það í kjölfarið, alveg klárt.