144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[18:36]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir ekki bara mjög áhugaverðar spurningar heldur mjög brýnar spurningar og þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir í að bæði nýta og veita þessa þjónustu. Það vakna mjög mörg siðferðileg álitamál.

Við í þeim starfshópi sem ég er í, sem er að endurskoða lög um málefni fatlaðra og félagsþjónustu, fengum kynningu á starfi verkefnahóps um notendastýrða persónulega aðstoð, þannig að við höfum kannski ekki farið af jafn mikilli dýpt í þann þátt eins og verkefnahópurinn, en það kom fram að lögð er sérstök áhersla á þjálfun og menntun þeirra sem eiga að veita þjónustuna. Þetta er auðvitað stórmál og endurspeglar kannski þá stöðu sem við erum í með verkefnið og hvað það skiptir miklu máli að ná utan um það, samhliða því markmiði að festa það í lög. Það er auðvitað það sem við stefnum að og afar mikilvægt að verði.