144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[18:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni kærlega fyrir að koma inn í þessa umræðu. Hann er greinilega með gríðarlega mikilvægt og vandasamt verkefni sem snýst um að sameina í ein lög, ef ég skil rétt, bæði málefni fatlaðs fólks og félagsþjónustu. Það er gamall draumur sem væri sérlega ánægjulegt að geta látið rætast vegna þess að við viljum ekki flokka fólk í lagabálka eftir einhverjum ákveðnum einkennum eða fötlun heldur reynum að búa til heildstæð lög sem tryggja réttlæti fyrir alla borgarana.

Hér var verið að tala um fresta ákvörðunum varðandi NPA, þ.e. að lengja núverandi reynslutímabil, þó þannig að það lægi á hreinu að þetta færi inn í nýju lögin sem hluti af þeim. Við gefum okkur tveggja ára tímabil í viðbót. Þýðir það að sá tími sem hv. þingmaður og nefndin verði með verkefnið í tvö ár eða ætla menn að reyna að ljúka því fyrr án þess að komin verði niðurstaða af þessari reynslu til að skýra myndina fyrir okkur sem komum ekki að borðinu?

Það væri líka fróðlegt ef hv. þingmaður gæti í stuttu andsvari komið aðeins nánar inn á fyrsta mat verkefnahópsins, ekki bara að það þurfi að skoða málið betur heldur varðandi fjárhagslega þáttinn og þjónustuna.

Ég skil þetta þá þannig að þessi lagabálkur verði meira og minna um skyldur sveitarfélaganna vegna þess að þetta eru málaflokkar sem munu heyra áfram undir sveitarfélögin. Mig langar að spyrja og vona að það sé ekki úr takti við það sem við erum að ræða hér af því að ég missti af umræðunni um skilyrðingarnar: Munu þær falla inn í þennan lagabálk? Með hvaða hætti verður haldið utan um það?