144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[18:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta ágæta mál hefur eðli málsins samkvæmt gefið tilefni til mikillar umræðu hér og góðrar um stöðu mála og hvernig flutningur málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga hafi gengið fyrir sig og hver staðan sé þar í því mikilvæga en auðvitað vandasama máli. Varðandi efnisatriði frumvarpsins er þar annars vegar verið að breyta ákvæðum í lögum um málefni fatlaðra og síðan einnig lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Ég hygg að það sé nú varla til hlutur sem menn eru meira sammála um en það sem þar er verið að mæla fyrir um í 1. gr., að styrkja lagastoð til þess að setja reglur sem taka á einelti og kynferðislegri áreitni og kynbundinni og ofbeldi á vinnustöðum. Spurningin sem aðeins hefur komið hér upp er hvort þarna sé nógu rækilega um hnútana búið.

Menn hafa staldrað við að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð. Það er alveg ljóst að það þarf að koma stoð fyrir því að í reglugerðinni sé kveðið á um þá hluti sem ekki eru nefndir sérstaklega í gildandi ákvæðum í 38. gr. þar sem talað er eingöngu um aðgerðir eða reglur til að taka á einelti. Fljótt á litið sýnist mér að það hljóti að duga að bæta þessum e-lið svo orðuðum inn sem þarna er talað um. Þó er vissara að fara vel yfir það þannig að enginn vafi geti stofnast um að reglugerð sem ráðherra setur, væntanlega óháð orðalaginu þarna, þótt það sé eingöngu heimilt, hafi fullnægjandi stoð í lögunum. Ég tel reyndar að orðalagið „setur reglugerð“ sé eðlilegra. Það er væntanlega enginn vafi um að það er það sem í undirbúningi er og reglugerðardrög tilbúin, eða a.m.k. unnin að einhverju leyti ef ég las rétt hér einhvers staðar í pappírunum.

Varðandi ákvæði 3. gr. ætla ég ekki að gerast dómari í því og hafa sterka skoðun á því að það er niðurstaða þeirra sem vinna á þessum vettvangi að þörf sé á því að fá heimild til þess að víkja frá ákvæðum laga um hvíldartíma og næturvinnutíma og annað því um líkt, enda sé það gert með samkomulagi á grundvelli samkomulags aðila vinnumarkaðarins. Það er þó auðvitað alveg ljóst að alltaf þarf að standa vandlega að slíku þannig að engin tortryggni skapist um að réttarstöðu viðkomandi sé á nokkurn hátt teflt í tvísýnu, sem og að ekki sé um eitthvert víðtækara fordæmi að ræða. En maður skilur út af fyrir sig alveg nálgunina að hafa meiri möguleika á meiri sveigjanleika þegar þetta er komið í notendastýrða persónulega þjónustu og það návígi starfsmannsins við þann sem hann aðstoðar. Eins og ég segi ætla ég ekki að hafa á því sterka skoðun og treysti því að vandlega sé um það búið.

Varðandi framlenginguna á þessu tilraunaverkefni — og í raun og veru þá framlengingu á óbreyttu ástandi sem hér er verið að tala um og þegar er orðin staðreynd að hluta til, það hefur tognað úr tímaáætluninni frá 2010, bæði hvað varðar mat á því hvernig til hefur tekist í yfirfærslunni og eins að gefa þessum tilraunafasa lengri tíma — þá er það bara veruleiki sem við stöndum frammi fyrir og ekkert meira um það að segja. Auðvitað hefði verið ágætt að hlutirnir hefðu gengið hraðar fram, m.a. vegna þess sem ég ætla að víkja aðeins að síðar, að menn hafa með vísan til þessa frestað nánast algerlega áformum um að í framhaldinu færðust málefni aldraðra yfir.

Að sjálfsögðu þarf líka að vanda þetta og skiljanlega vilja menn fá reynslu á þessi verkefni og ekki flýta sér um of varðandi það að draga af þeim lærdóma og setja svo í lög og eftir atvikum samninga framtíðarfyrirkomulagið.

Örfá orð um kostnað sem menn hafa nefnt hér. Það kemur gjarnan upp umræðan sem er gamalkunnug um það hvort verkefninu hafi fylgt nógir fjármunir. Nú er það þannig að sjálfsagt má endalaust segja að það séu aldrei nógir peningar í mál af þessu tagi og lengi hægt að gera betur. Ég vil þó halda því til haga að í fyrsta lagi, svo merkilegt sem það nú er, náðu menn utan um og kláruðu þessa vandasömu aðgerð eiginlega á botni kreppunnar, því að þungi þessara viðræðna var á síðari hluti ársins 2009 og fyrri hluta ársins 2010. Menn létu það ekki aftra sér frá því að fara í þá aðgerð að færa málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna. Það var gert þannig að ég leyfi mér að halda því fram, og að mér sé málið skylt, að ríkið hafi staðið mjög myndarlega að því af sinni hálfu og látið fyrst og fremst málaflokkinn njóta þess að ríkið skæri ekki við nögl eða væri ekki með nánasarskap í því að tryggja tekjur með verkefninu og stuðning við breytingarnar. Ég skal ef ég má, forseti, fara örlítið yfir það hvernig menn nálguðust þetta viðfangsefni.

Það var fljótt ljóst að menn mundu fyrst og fremst færa tekjur til sveitarfélaganna með því að gera breytingu á skiptingu milli tekjuskatts og útsvars, það yrði tekjuskattsstofninn sem yrði þarna í sigti og ljóst að hlutfall sveitarfélaganna af tekjuskattsstofninum mundi hækka. Þá tóku menn sig til og reiknuðu út kostnað málaflokksins, og væntanlega hefur það verið eins og hann var þá þegar upp var staðið á árinu 2009, og horfðu á útsvarsstofninn eða tekjuskattsstofninn og útkoman úr því reikningsdæmi var að miðað við það hvernig útsvarsstofninn stóð þá, auðvitað mjög veikur á botni kreppunnar, þyrfti um 1,34% eða 1,36%, eða hvað það nú var, til þess að mæta kostnaði að fullu við málaflokkinn eins og hann hafði verið á því tímabili sem menn höfðu næst sér í tíma.

Af hálfu ríkisins var bent á að útsvarsstofninn væri mjög veikur og augljóst mál að um leið og færi að ára betur í efnahagslífinu mundi hann styrkjast og lægra hlutfall duga. Þannig að sú leið var valin að festa þetta við 1,2% af tekjuskattsstofninum og bæta upp það sem á vantaði þangað til hann hefði styrkst svo að raungildi teknanna væri komið í þetta reiknaða viðmið. Menn reiknuðu jafnvel með því að það tæki þrjú til fjögur ár. En svo vel hresstist nú sveinki að þetta sérstaka viðbótarframlag ríkisins til að mæta veikum útsvarsstofni, þörfin fyrir það hvarf á um tveimur árum. Þá hafði útsvarsstofninn styrkst á nýjan leik það mikið, launasumman í landinu stækkað það vel, að 1,2% dugðu. Þar með hvarf sá hluti framlagsins sem ríkið lagði með í púkkið til að mæta hinum veika útsvarsstofni.

En ríkið gerði meira. Það kemur auðvitað mjög við sögu hér. Ríkið lagði jafnframt inn á þriggja ára tímabilinu sem í hönd fór, 2011, 2012 og 2013, umtalsverða fjármuni. Í fyrsta lagi var það til að mæta þróunarverkefnunum við notendastýrða persónulega þjónustu. Það voru samtals 300 milljónir sem voru settar í samninginn um það, 50, 100 og 150 milljónir hvert ár um sig, 2011, 2012 og 2013. Það voru lagðir talsverðir fjármunir í það í öðru lagi að vinna á biðlistum í kerfinu og það voru lagðir talsverðir fjármunir í umbreytingakostnaðinn og umsýsluna sem tengdist þessari aðgerð. Gott ef ég er ekki að gleyma einhverju sem ríkið lagði sérstaklega og í viðbót við það að tryggja sveitarfélögunum að fullu þær fjárveitingar sem hafði kostað að reka málaflokkinn árin á undan.

En þá koma menn og segja: Já, en svo vex þörfin. Það eru kröfur um aukna þjónustu. Já, það er alveg rétt, þær eru gjarnan þannig. En því breyta menn auðvitað ekki þótt þeir færi verkefnið á milli, hvort heldur það er frá ríki til sveitarfélaga eða öfugt. Þá skiptir máli að tekjustofninn sem sveitarfélögunum er tryggður er hluti af launaveltunni í samfélaginu. Hvernig skyldi nú þróunin hafa orðið hvað það varðar, hversu drjúg hafa þessi 1,2% reynst sveitarfélögunum? Jú, þar hefur orðið auðvitað mjög ánægjuleg þróun vegna þess að það hefur stórdregið úr atvinnuleysi, það eru fleiri á vinnumarkaði og laun hafa hækkað umfram verðlag. Launasumman í þjóðfélaginu hefur hækkað meira en verðlag, meira en neysluverðsvísitalan. Þá ætti að vera plús í því að sveitarfélögin fengu svona tekjustofn til að standa undir verkefninu sem hefur vegna batans í hagkerfinu, vegna minnkandi atvinnuleysis og vegna hærri launa styrkst umfram þróun neysluverðsvísitölu.

Ég held að ekki þurfi flókna útreikninga til að átta sig á að þetta á að hafa komið vel út fyrir sveitarfélögin. Að sjálfsögðu er svo metnaður þar til að gera vel og það er gott, alveg eins og reyndist þegar grunnskólinn var fluttur yfir.

Ég vil meina að ríkið hefði ekki getað staðið öllu betur að þessu nema að beinlínis bæta þarna verulegum viðbótarfjárveitingum við. Það er enginn vafi á því að tímabilið 2011–2013 kostaði ríkið meira en hefði gert að halda verkefninu hjá sér, það blasir við því að öll viðbótarframlögin sem þarna komu hefðu þá ekki fallið til. Þá hefði vissulega ekki orðið af aðgerðinni sem ég styð og tel hafa verið alveg hárrétta.

Hér hef ég svo ekkert nefnt það, herra forseti, inn í þetta púkk að vegna eðlis samskipta ríkisins og sveitarfélaganna um útsvarið og vegna þess að ríkið tryggir sveitarfélögunum alltaf fullar útsvarstekjur af þeim sem á annað borð borga skatta þá er svo bakreikningur á ríkið sem örugglega nálgast 1 milljarð kr. núna vegna þessa 1,2 prósentustiga sem fóru úr tekjuskatti yfir í útsvar og ríkið bætir að fullu það sem upp á vantar að þessar útsvarstekjur upp á 14,4% að meðaltali hjá sveitarfélögum í landinu skili sér til þeirra. Sá reikningur er örugglega á annan tug milljarða í dag. Hann stækkar auðvitað þegar hlutfall útsvarsins af heildarskattstofninum stækkar. En ákveðið var að láta það ekkert blandast inn í þessa samninga og þessi samskipti, þannig að í reynd má segja að ríkið hafi algerlega einhliða tekið það á sig og lagt það af mörkum, til þess að menn hafi nú alla myndina undir.

Eins og ég segi hefur þessi dráttur, ásamt með kannski fleiru, orðið meðal annars til þess að það hefur síðan ósköp lítið og nánast ekkert gerst í áformunum um að klára í raun verkið og færa málefni aldraðra yfir til sveitarfélaganna. Það þarf að gera. Væri nú fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hvar það verkefni er á vegi statt, hvort það er algerlega á ís eða hvort eitthvað hafi verið unnið í því. Ég tel að menn nái ekki utan um þessi mál eins og til stóð að fullu fyrr en því verki er lokið. Þá er öll þessi nærþjónusta komin saman til sveitarfélaganna og þar á hún að vera, að mínu mati. Auðvitað með dyggum stuðningi ríkisins sem á ekki að sjá eftir því að vel sé gert í þessum málaflokki og þessum málaflokkum báðum þegar sveitarfélögunum eru tryggðir tekjustofnar til að standa vel að þeim verkefnum. Mér finnst í raun erfitt hvert ár sem líður sem við töpum í því að hafa það markmið í sjónmáli að klára verkefnið og færa málefni aldraðra líka á eftir málefnum fatlaðra og síðan allri annarri nærþjónustu sem sveitarfélögin hafa þar með höndum.

Það er að vísu að störfum starfshópur, einn af þremur heyrði ég áðan, um að meta fjárhagsleg og fagleg áhrif af yfirfærslunni og það er vel, en gaman væri að frétta af því hvar það er á vegi statt.

Sumir hafa talið að sveitarfélögin í landinu væru of veikburða, og sérstaklega þau smærri, til að taka við þessum verkefnum. Mér sýnist það ekki vera reyndin þegar kemur að yfirfærslu málefna fatlaðra. Ég tel að samstarf sveitarfélaganna á svæðisgrundvelli hafi leyst það mál mjög vel og reyndar voru þau almennt og flest komin í samstarf um þennan málaflokk hvort sem var, oftast á grundvelli fjórðungssamtakanna. Það hefur gengið ágætlega, enda er ekkert því til fyrirstöðu að tryggja að of fámenn svæði eða sveitarfélög séu ekki að baksa í þessu ein og óstudd, einfaldlega með ákvæðum sambærilegum við það sem er í barnaverndarlögum um að ákveðinn lágmarksíbúafjöldi þurfi að standa á bak við það þegar menn takast á við málaflokk af þessu tagi. Sama leið var valin varðandi málefni fatlaðra og væri að sjálfsögðu einnig hægt að gera með málefni aldraðra.

Herra forseti. Þetta voru nú þau sjónarmið sem ég vildi gjarnan koma á framfæri við þetta tækifæri.