144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[19:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt krefja hæstv. ráðherra og fulltrúa meiri hlutans svara, alla vega áður en málið verður afgreitt þannig að menn hafi einhverja fullvissu fyrir því að þarna sé ekki uppi mikil óvissa áður en það verður gert. Ég verð að játa að ég heyrði ekki þegar hæstv. ráðherra tjáði sig um málið fyrr í dag, en ég heyrði samt á orðaskiptum að menn voru eitthvað að velta vöngum yfir því hversu traust staðan væri að þessu leyti, að þessir fjármunir mundu skila sér. Ég held að það gefi augaleið að það væri ekki góð sending inn í andrúmsloftið gagnvart sveitarfélögunum ef þessi mál væru í einhverri óvissu á þeim tveggja ára tíma sem í hönd fer.

Nú verður auðvitað að viðurkennast að hér er verið að tala um nokkurn viðbótarkostnað frá ríkinu borið saman við upphaflegu 300 milljónirnar inn í þetta verkefni sem áttu að falla til á tímabilinu 2011–2013. En síðan tafðist það jú og menn hafa verið að nota ónýttar fjárheimildir sem geymdust. En við erum líka að tala um að framlengja þetta tímabil og fá meiri reynslu á það. Ég held að það hljóti að teljast sanngjarnt að ríkið komi þá áfram með sveitarfélögunum í það.

Ég er líka að hugsa um það, herra forseti, að það má bara ekki gerast að það súrni í þessum samskiptum þannig að einhverjar umræður vakni aftur um að skila málaflokknum til baka. Það væri svo sorglegt ef það gerðist, en nýleg dæmi sýna að þannig getur farið, samanber tilraunaverkefni um rekstur Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri sem ég er algerlega eyðilagður maður yfir að skyldi fara eins og raunin varð. Það var eins og bara ríkið missti áhugann og sneri rassinum í Akureyrarbæ og hann neyddist til að skila verkefninu, þannig að menn fara aftur á bak í staðinn fyrir að fara áfram með mál af þessu tagi.