144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[19:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þær upplýsingar sem hann gaf um forsögu málsins. Það er ákaflega mikilvægt fyrir íbúa í sveitarfélögunum að það sé sveitarfélagið sem sjái um nærþjónustuna; grunnskólann, málefni fatlaðra og síðan málefni aldraðra. Þetta eru stórir málaflokkar sem mikilvægt er að sinnt sé í nærsamfélaginu. Ég er sannfærð um að það er langbest og farsælast fyrir íbúana að sveitarfélögin sjái um þennan málaflokk. Vandinn er, eins og hv. þingmaður kom inn á, að það ríkir ákveðin tortryggni á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga. Ég heyri úti í mínu kjördæmi þegar ég tala við sveitarstjórnarmenn þann tón í þeim að það hefði nú aldrei átt að taka við þessu verkefni, við hefðum átt að læra af yfirfærslu grunnskólans o.s.frv., og talað um ekki verði farið í að flytja málefni aldraðra yfir til sveitarfélaganna nema með einhverjum skilyrðum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvað hann vilji segja um þessa tortryggni og hvort verið geti að þarna höfum við á sínum tíma eða fyrri ríkisstjórn ekki undirbúið málið nægilega vel. Eða af hverju í ósköpunum er þessi tortryggni enn uppi? Og af hverju fólk er enn að tala um að ekki sé úr nægjanlegu fjármagni að spila? Það veldur óöryggi, ekki bara hjá þeim sem reka sveitarfélögin, heldur fyrst og fremst hjá þeim sem þurfa síðan að reiða sig á þjónustuna.