144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[19:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þingmaður nefndi tekjustofna sveitarfélaga og að sveitarfélög fái t.d. ekki hluta af fjármagnstekjuskatti og það sé óstöðugur tekjustofn, ég get verið sammála því, en hins vegar getur það valdið óróa í smærri sveitarfélögum þegar verktakarnir með einkahlutafélögin skammta sér lág laun og borga af þeim til sveitarfélagsins og taka síðan arð út úr fyrirtækinu og það rennur beint til ríkisins en ekki til sveitarfélagsins. Það veldur oft kurr í sveitarfélaginu þegar skattframtölin eru lögð fram eða upplýsingarnar um útsvars- og tekjuskattsgreiðslur.

Virðulegi forseti. Mig langar að víkja aðeins máli mínu að áliti eða umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem mér finnst vera ákaflega gott. Það eru einhverjir hér í dag sem hafa rætt um að þarna sé eitthvað skrýtið á ferðinni og gefið sé í skyn að það eigi kannski ekkert að borga þessa peninga inn. En ég skil þessa greiningu þannig að verið sé að benda á að þarna verði að grípa í taumana, menn hafi gleymt að gera ráð fyrir þessum peningum og þarna sé verið að tala um að vinna tilraunaverkefni á árinu 2016. Hæstv. ráðherra hefur sagt í dag að þetta verði að lögum og það sé stefnan, þá verður auðvitað að gera ráð fyrir þeim peningum, bæði fyrir árið 2016 og síðan í framtíðarfjárhagsáætlun ráðuneytisins.

Þannig að ég túlka þetta svona og spyr hvort hv. þingmaður geti ekki verið sammála því að þetta séu bara varnaðarorð, munið eftir að setja pening í málaflokkinn ef þið ætlið að láta þetta ganga upp.