144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[19:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að kostnaðargreiningin er mikilvæg. Ég bind talsverðar vonir við það sem kemur fram í fylgiskjali með frumvarpinu, að gengið hafi verið frá samningi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um að gera faglega og fjárhagslega úttekt á notendastýrðri persónulegri aðstoð hér á landi. Við fáum vonandi mjög góða greiningu á því. Þar ætti að vera fagþekkingin á því hvaða þætti við þurfum að taka inn í þetta reikningsdæmi sem er síður en svo einfalt.

Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að ýmiss konar félagasamtök, til að mynda samvinnufélög eða annar félagsskapur, sem rekin eru á félagslegum grundvelli þar sem peningar sem gætu orðið til fara í þjónustuna, eru mjög mikilvæg vegna þess að þetta er velferðarúrræði. Mér finnst mjög mikilvægt að við höfum sömu sjónarmið að leiðarljósi í þessu velferðarúrræði og þegar kemur að öðrum velferðarúrræðum eins og heilbrigðisþjónustu. Það er mjög mikilvægt að við útvistum ekki verkefnum til einkaaðila sem geta þar með grætt á velferð fólks.