144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[19:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks. Það er ýmislegt jákvætt í þessu frumvarpi en það eru líka atriði sem mun þurfa að fara yfir í nefndinni og staldra við.

Í umræðunni hafa komið fram vangaveltur varðandi 1. gr., a-liðinn, en orðalagið er að heimila skuli að setja reglugerð. Hæstv. ráðherra hefur sjálf svarað því að hún hafi fengið þær upplýsingar að þetta væri lagatæknilegt en nú væri meira talað um að „heimilt væri“ heldur en „skuli“ og við munum náttúrlega skoða það í nefndinni, því að sú reglugerð sem verið er að heimila ráðherra að setja liggur þegar fyrir. Það er búið að vinna hana en ráðherra hefur ekki getað birt hana því hún hefur ekki lagastoð til þess. Þetta er mjög mikilvæg reglugerð. Hún varðar umgjörðina um þær reglur sem settar eru varðandi aðgerðir gegn einelti, gegn kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Þetta eru háalvarleg mál oft á tíðum og valda því að fólk hrökklast úr vinnu og það getur haft langvarandi afleiðingar. Það skiptir kannski máli að almenn fræðsla sé um þessi mál og það séu skýr skilaboð frá löggjafanum að þetta séu mál sem séu í raun og veru tekin alvarlega. Ég er mjög ánægð með þetta og sérstaklega er ég ánægð með að þarna sé að koma inn, ekki einvörðungu einelti heldur einnig kynferðisleg og kynbundin áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Síðan er í 2. gr. verið að setja þá reglu að ef Vinnueftirlitið hefur sent skrifleg fyrirmæli til atvinnurekenda um úrbætur þurfi atvinnurekandinn eða fulltrúi hans að tilkynna Vinnumálastofnun þegar brugðist hefur verið við athugasemdunum. Þetta auðveldar Vinnueftirlitinu, sem er miðað við mikilvægi tiltölulega lítil stofnun, skilvirkni í því að fylgja því eftir að farið hafi verið að úrbótum. Þá er hægt að gera stikkprufur varðandi þá sem hafa brugðist við en hægt að einbeita sér að öðru en því en að reyna að átta sig á hverjir hafi farið að tilmælum og hverjir ekki. Þetta eykur skilvirkni í eftirlitinu og þá verður það vonandi áhrifaríkara og vinnst tími til að auka eftirlitið, enda er það mjög mikils virði fyrir öryggi fólks á vinnustöðum og á vinnumarkaði almennt.

Svo kemur 3. gr. Hún er kannski sú flóknasta í frumvarpinu. Notendastýrð persónuleg aðstoð veitir fólki mikil réttindi, er mikil réttindabót þar sem fólk fær möguleika til sjálfstæðs lífs, eitthvað sem okkur flestum finnst svo sjálfsagt að við gerum okkur í raun ekki grein fyrir hvað það er að geta ekki notið sjálfstæðs lífs. Það er eiginlega ómögulegt, held ég, að setja sig í þau spor. Maður getur það þó þegar maður hefur talað við fólk sem hefur farið inn í notendastýrða persónulega aðstoð og lýsir hvers konar umbylting þetta er í lífinu og hvernig þetta hefur áhrif á sjálfsmynd og kjark og getu fólks til að takast á við lífið rétt eins og aðrir, og sumir af þvílíkum glans að það er hægt að líta til þess öfundaraugum hverju fólk getur áorkað þegar það fær tækifæri til að vera sjálfstætt en ekki upp á eitthvert kerfi komið. Eins og þessi réttindi eru mikilvæg eru réttindi launafólks jafnframt mjög mikilvæg. Við erum með mikið regluverk á vinnumarkaði til að vernda launafólk, til að tryggja réttindi þess og það er launafólk sem vinnur í notendastýrðri persónulegri aðstoð og það þarf að finna leiðir til að réttindi þess séu ekki brotin. Það er auðvitað fjöldi fólks sem starfar við notendastýrða persónulega aðstoð og gerir það af því að því finnst það skemmtilegt starf og það er kannski vinnufyrirkomulag sem hentar vel, þannig að það er sjálfsagt að finna leiðir til að gera þetta mögulegt. En því þurfa að vera skorður settar hvernig undanþágur frá lögum eru veittar. Það er kveðið á um það í lögunum að það verði ákvæði til bráðabirgða þangað til endanlega verður gengið frá yfirfærslunni og fyrirkomulagi NPA þegar það verður lögfest og það eru samtök aðila vinnumarkaðarins sem geta náð slíku samkomulagi. Ég tel það mjög mikils virði að Vinnueftirlit ríkisins veiti umsögn um slíkt samkomulag, eins og kveðið er á um í frumvarpinu. Ég tel, eins og ég sagði áðan, að þetta verði kannski það sem nefndin muni skoða hvað gaumgæfilegast, þetta geti verið flóknasti þáttur þessa frumvarps.

Síðan er hér ártal sem verið er að breyta. Í stað þess að yfirfærslunni og fyrirkomulagi fjármála þar á milli verði lokið árið 2014, sem það gerði augljóslega ekki því að nú er komið árið 2015, þá er sett árið 2016 og í b-lið 4. gr. er lagt til að notendastýrð persónuleg aðstoð verði lögfest sem þjónustuúrræði fyrir fatlað fólk í þeim lögum.

Á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga er mjög mikið fjallað um yfirfærsluna á málaflokknum og um málefni fatlaðs fólks. Það var til dæmis gerð ítarleg skýrsla um ánægju eða upplifun fólks af þessum breytingum, hverjir væru veikleikarnir og hverjir væru styrkleikarnir. Mér fannst það til fyrirmyndar og sýna metnað í því að gera þetta vel og vera með í fókus þá sem njóta þjónustunnar. Það er auðvitað víða pottur brotinn. Það eru sérstaklega húsnæðismálin. Atvinnumálin eru líka veikur punktur og svo er auðvitað erfiðara á minni stöðum að halda uppi ákveðnu þjónustustigi, þótt það sé langt í frá þannig að einhver áberandi munur sjáist þó að byggðarlögin séu minni. Sambandið óskaði eftir því á síðasta ári að eiga fund með velferðarnefnd og við fórum til þeirra í heimsókn. Þar fórum við yfir ýmsa málaflokka, ekki síst málefni fatlaðs fólks og ákveðið var að hafa þessa fundi fyrir venju. Nú munum við bjóða sambandinu til okkar að ári liðnu frá fyrri fundi, nú í mars, og þá verða sérstaklega rædd þessi yfirfærslumál, hvað stendur út af og hvaða vandi sé fyrir höndum. Þetta eru upplýsingafundir af því að það eru svo margir málaflokkar sem velferðarnefnd fæst við, sem skarast að einhverju leyti við þá málaflokka sem sambandið á við og kannski eru það gráu svæðin á milli ríkisins og sveitarfélaganna sem sveitarfélögin vilja minna okkur á og fá okkur til að vera meðvituð um við lagasetningu og slíkt, að passa upp á að það séu ekki þjónustuþættir sem falli á milli. Ég hef áður sagt að vegir fjármálalegra samskipta ríkis og sveitarfélaga séu órannsakanlegir. Það eru stöðug viðfangsefni og átök þar á milli. Það er ekkert annar aðilinn sem er rétthærri í þeim efnum en það eru auðvitað allir að hugsa um að verja sinn útgjaldaramma í þeim efnum. En ég held að þessir fundir séu mjög gagnlegir fyrir okkur í nefndinni til að átta okkur á því hvernig mál eru að þróast og hverju við þurfum að gefa sérstakan gaum í starfi okkar. Svo er það náttúrlega fjármálaráðuneytisins fyrst og fremst en síðan fjárlaganefndar þegar málið kemur til þingsins. Það er sú nefnd sem fjallar fyrst og fremst um fjármálaþáttinn. En það skiptir miklu máli að við gerum okkur grein fyrir því hvernig gengur með málaflokkinn og hvort það sé eitthvað í löggjöfinni sem ýti undir veikleika og vandræði.

Ég hef áður lýst því yfir og hæstv. ráðherra hefur sjálf farið yfir það hér að víða um lönd hefur það að fara yfir í notendastýrða persónulega aðstoð tekið umtalsverðan tíma og fengið góðan undirbúningstíma. Ég er ekki svo vel að mér í þeirri vinnu að ég geti lagt dóm á hvort ekki hafi verið unnið í málinu af nægilegri festu. Ég get vel skilið að þetta taki lengri tíma en áætlað var en mér finnst að það megi ekki missa metnaðinn. Það er synd að ekki eigi að halda áfram að fjölga samningum. Þeim hefur fjölgað. Árið 2012 voru NPA-samningar 22, 54 árið 2013, ekki nema 51 árið 2014, síðan 61 núna á þessu ári og það er gert ráð fyrir að þeim fjölgi ekki á næsta ári. Það er jafnvel gert ráð fyrir að þeim kunni að fækka ef ekki fæst nægileg fjárveiting. Auðvitað munum við fylgjast með því að þessar 85 milljónir komi inn, en við hljótum líka að ræða það í umfjöllun um þetta frumvarp hvort ekki sé möguleiki á að fjölga samningunum. Það er bent á það líka að lögð er áhersla á það núna þegar verið er að endurskoða lög um málefni fatlaðs fólks og félagsþjónustu sveitarfélaga að ekki eigi að festa eitt úrræði sem aðalþjónustuúrræðið heldur eigi að vera val, en það er náttúrlega ekki raunverulegt val fyrir hendi nema það séu fjárveitingar inn í þau þjónustuform sem margir sækjast eftir. Það var ágætt sem kom hér fram í máli hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur að það þarf ekki að draga neina dul á að notendastýrð persónuleg aðstoð kostar sitt en þetta er ekki hreinn kostnaður því að hann er til staðar. Það þarf að veita þjónustuna þótt þetta kunni að vera eilítið dýrara en þá er svo margt sem sparast á móti, ekki síst ef litið er til þess að þetta eykur möguleika fólks til þátttöku í samfélaginu hvað varðar bæði nám og vinnu og sparar í heilbrigðiskostnaði vegna þess að fólk fær þjónustu sem er sniðin að þörfum þess og það eykur vellíðan og dregur úr heilsubresti.