144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[19:47]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur spurningarnar. Varðandi jafnræðið við framkvæmd samninganna og stöðu misstórra sveitarfélaga til að koma til móts við þarfir íbúa sinna er það náttúrlega svo að NPA-samningarnir eru að hluta til fjármagnaðir úr jöfnunarsjóði, þannig að það eykur auðvitað möguleika minni sveitarfélaga og við höfum komið málaflokknum þannig fyrir að þjónustusvæðin dekka að minnsta kosti 8 þúsund manns sem á að tryggja betur jafnræði. Svo þarf ekkert að draga dul á það að fólk, annaðhvort foreldrar barna sem fæðast með fötlun eða fólk sem hefur vegna slysa eða veikinda orðið fatlað á unglings- eða fullorðinsárum, hefur stundum þurft að flytja frá minni stöðum vegna skorts á þjónustu.

Ég ætla bara að játa það að ég veit ekki hvort yfirfærslan hefur breytt þeirri stöðu og þori ekki að fullyrða um það hér. En þetta er eitthvað sem við þurfum alltaf að velta fyrir okkur, ekki bara með þennan málaflokk heldur almennt með þá þjónustu sem sveitarfélög veita sökum þess hve sum eru lítil og í raun ekki í stakk búin til að takast á við verkefni sem er ekkert mál fyrir Reykjavík að taka að sér, eða Garðabæ eða Akureyri.

Varðandi gliðnunina er það náttúrlega næsta skref, að tryggja að (Forseti hringir.) þeir sem ekki eru í NPA fái ekki lakari þjónustu, að hjá þeim sé ekki lakara þjónustustig.