144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[19:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu eða fyrra svari held ég að það sé verkefni sem við erum kannski núna að fara að taka á, að tryggja þetta jafnræði. Það gerist náttúrlega með því að innan sveitarfélaganna og hér á vettvangi þingsins sé fólk sem láti sig þessi mál varða og fylgi því eftir að allir fái þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda.

Það má heldur ekki gleyma því að með notendastýrðri persónulegri aðstoð hefur fötluðu fólki verið gert auðveldara að vera málsvarar fatlaðs fólks, það á auðveldara með að láta rödd sína heyrast og það hefur í raun og veru gjörbreytt aðstæðum, þannig að málsvarar málaflokksins verða líka fleiri með notendastýrðri persónulegri aðstoð.

Varðandi fjölda sveitarfélaga vil ég segja að það er náttúrlega svo komið núna að eitt sveitarfélag, nokkuð burðugt, er með einn skóla sem það treystir sér til ekki að reka og nú á að fara að breyta lögum svo að það geti verið með einn einkaskóla í sveitarfélaginu. Það er náttúrlega ekki hægt. Það er ekki hægt að reka þetta svona.

Varðandi 8 þúsund manna þjónustusvæði var það nú síðast í dag sem hæstv. ráðherra sagði einmitt um byggðasamlögin að það losaði ekki sveitarfélögin undan ábyrgð. Og þetta er áleitið núna, ekki síst einmitt varðandi málaflokk þjónustunnar við fatlað fólk, að það er mikið rekið í byggðasamlögum og umboðskeðjan, kannski er umboðskeðjan of óskýr, þetta er eitthvað (Forseti hringir.) sem við þurfum að fara yfir núna.