144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

frumvarp um stjórn fiskveiða.

[15:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Um þetta ákvæði hefur verið góð sátt. Á undanförnum árum hefur talsvert verið rætt um að ítreka þennan lagaskilning í stjórnarskránni. Ég hef stutt það að slíkt ákvæði færi í stjórnarskrá. Það er þess vegna enginn fótur fyrir því að það sé ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um að nytjastofnarnir verði áfram í sameiginlegri eign þjóðarinnar. Þegar menn leggjast hins vegar í það verk að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið okkar og alla þá umgjörð er ekki nema eðlilegt að menn vandi til verka. Það hefur verið grunnhugsun í þeirri vinnu sem sjávarútvegsráðherra hefur stýrt að vinna verkið þannig að um kerfið gæti skapast sem mest sátt. Á síðasta kjörtímabili var málið unnið með öðrum hætti að mínu áliti. Sjávarútvegsgreinin var öll meira eða minna í uppnámi og mikil átök um málið. Grunnhugmyndafræði ríkisstjórnarinnar var að byggja á þeim kannski granna þræði sem myndaðist þegar sáttanefndinni var komið á fót og halda áfram að rekja sig eftir honum í þeim tilgangi að ná breiðri samstöðu. Það er bara misskilningur ef því er haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.