144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

úthlutun byggðakvóta til ferðaþjónustuaðila.

[15:17]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi beina því til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann fari nú að koma með þetta frumvarp sem er rætt hér undir rós, fiskveiðistjórnarfrumvarpið svokallaða. Mikið var tala um óvissu á síðasta kjörtímabili svo að það hlýtur að ríkja mikil óvissa núna úti í þjóðfélaginu og menn kalla eftir því að fá þetta mál til umræðu.

Ég vil ræða um úthlutun á byggðakvóta til erlendra sjóstangveiðimanna. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur undanfarin ár, eitt til tvö ár, úthlutað byggðakvóta sem eyrnamerktur er til dæmis Suðureyri og Flateyri til ferðaþjónustuaðila sem reka sjóstangveiðifyrirtæki og eru í meirihlutaeigu erlends aðila. Þetta er gert, að því er sagt er, út af erfiðleikum þessara fyrirtækja við að útvega sér kvóta og þannig réttlætt að gengið sé að þessum sérstaka byggðakvóta fyrir þessi þorp. Í breytingum á lögum um stjórn fiskveiða árið 2011 voru 300 tonn af óslægðum fiski ætluð til frístundaveiða. Ég vil gjarnan spyrja ráðherra hvort svo eigi ekki að vera enn þá, hvort hann hafi ekki endurnýjað þetta, sem var í bráðabirgðaákvæði þá, frá því hann tók við sem ráðherra.

Smábátamenn á Suðureyri hafa harðlega gagnrýnt þessa ráðstöfun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar á byggðakvóta sem ætlað er til ráðstöfunar á Suðureyri í þessu tilfelli og hafa skrifað opið bréf til bæjarstjórnar um þessi mál, að þar sé gengið á svig við almennar reglur um úthlutun á byggðakvóta.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það sé eðlilegt að ríkið sé sérstaklega að styrkja erlend sjóstangveiðifyrirtæki með þessum hætti þó að þau séu mikilvæg, hvort ekki eigi að hafa sérstakan (Forseti hringir.) kvóta ætlaðan þeirri starfsemi.