144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

aðgerðaáætlun í málefnum fátækra.

[15:24]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég hef töluvert miklar áhyggjur af stöðu þeirra sem glíma við fátækt hérlendis. Samkvæmt skýrslu sem kom frá velferðarvaktinni í desember 2013 eru nokkur atriði sem mig langar til að fara yfir með hæstv. ráðherra. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Þá er ljóst að hópur barna býr við fátækt og erfiðar aðstæður sem bregðast þarf við með það í huga að glötuð tækifæri í æsku verða ekki bætt síðar á lífsleiðinni.

Alþjóðlegar rannsóknir sýna að afleiðingar fátæktar eru skaðlegar heilsu fólks, leiða til félagslegrar útskúfunar, draga úr lífsgæðum og eru samfélaginu dýrar, hvort heldur er litið til lengri eða skemmri tíma. Ísland stendur almennt vel í alþjóðlegum samanburði en þrátt fyrir það eru of mörg heimili undir lágtekjumörkum, til dæmis búa 9,3% íslenskra barna á heimilum sem eru undir lágtekjumörkum. Þar skera heimili einstæðra foreldra sig úr þar sem 28% þeirra eru undir lágtekjumörkum. Einkum er hópur einstæðra mæðra í mikilli áhættu að lenda í langvinnri fátækt. Börn sem alast upp í fátækt eru líklegri til að verða fátæk á fullorðinsárum og verða fátækir aldraðir.

Bent hefur verið á að innan hóps einstæðra mæðra sé staða mæðra af erlendum uppruna hvað verst, ekki síst vegna þess að þær hafi oftast lítið félagslegt stuðningsnet hér á landi. […]

Niðurstöður íslenskra rannsókna sýna að öryrkjar sem til langframa lifa eingöngu af bótum Tryggingastofnunar ríkisins eiga í erfiðleikum með að tryggja daglegt viðurværi, leysa út lyf eða leita læknisþjónustu vegna kostnaðar og búa þar með við fátækt. Það sama gildir um þá sem hafa viðurværi sitt af fjárhagsaðstoð sveitarfélaga til lengri tíma og lágtekjufólk sem býr við háan húsnæðiskostnað.“

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort stjórnvöld, ríki og samtök sveitarfélaga hafi sett fram heildstæða tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig vinna skuli bug á fátækt á Íslandi eins og lagt er til í skýrslu velferðarvaktarinnar.