144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

Hafrannsóknastofnun.

[15:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Hún er áhugaverð, ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að loðnan hagar sér með talsvert öðrum hætti en venjulega. Loðnan er reyndar ólíkindatól og hefur verið það í gegnum áratugina. Við tókum nokkuð djúpa umræðu á síðasta þingi um það að Hafrannsóknastofnun hefur verið fjársvelt um langa hríð, langt skeið. Það var því mikið gleðiefni að samstaða náðist um það hér í þinginu og í fjárlaganefnd, að frumkvæði ráðuneytisins og sjávarútvegsráðherra, að tryggja Hafrannsóknastofnun umtalsvert meiri fjármuni á þessu ári en á síðasta ári — ef ég man rétt um 338 milljónir, þar af að vísu 150 sem eru vegna hvalatalningar og sértekjur af þessu eru tæpar 30 milljónir.

Annars er mjög ítarleg frétt um þetta mál á vef ráðuneytisins og ég beini því til þingmanna að kynna sér það því að það getur verið að ráðherra muni ekki nákvæmlega allar tölur. En aukningin á milli ára í heildarfjármögnun var eitthvað um 12,6% þannig að við gerðum eins mikið og hægt var. Og ef við undanskiljum þær 150 milljónir sem fara einsskiptis í hvalatalninguna er það um 6,5% aukning á milli ára, þar af 100 milljónir í rannsóknir á uppsjávartegundum eins og makríl og loðnu, sem ég held að hafi skilað sér.

Á síðasta ári settum við einnig á fjárauka umtalsverða fjármuni, eða 50 milljónir, í loðnurannsóknir þannig að við höfum sannarlega gert eins mikið og við höfum getað við þessar aðstæður. Það er hins vegar alveg ljóst að því meiri upplýsingar sem við höfum, því betri upplýsingar sem við höfum, því ábyggilegri eru þær ákvarðanir sem við byggjum ákvarðanir okkar á. Við byggjum þær á hinum vísindalega grunni og erum býsna stolt af því. Eflaust væri líka hægt að minnast á að veðráttan hefur verið einstaklega sérkennileg og erfitt að fara út. Það hefði alveg mátt hugsa sér að fiskifræðingar hefðu hugsanlega farið með (Forseti hringir.) einhverjum af þeim fiskiskipum út til þess að fylgjast með. Það hefði verið ódýrari leið til að fylgjast með loðnunni en að senda eitt skip, því að það er erfitt að finna loðnu á öllum hafsvæðinu, hún er að haga sér með nýjum hætti.