144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

skipan í stjórnir, ráð og nefndir á vegum ríkisins.

513. mál
[15:41]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir fyrirspurnina. Eins og þingmaðurinn fór í gegnum þá skal, samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í nefndir og ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga, gæta þess að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% ef um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.

Þá kemur fram í 2. mgr. 15. gr. að þegar ríki og sveitarfélög tilnefna í nefndir, ráð og stjórnir skuli óska eftir því að bæði karlar og konur séu tilnefnd. Aðeins er heimilt að víkja frá þeim kröfum þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er hægt að fylgja þeim.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. leiklistarlaga, nr. 138/1998, skipar ráðherra fimm manna þjóðleikhúsráð. Félag íslenskra leikara tilnefnir einn fulltrúa og Félag íslenskra leikstjóra tilnefnir annan en þrír eru skipaðir án tilnefningar. Samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu hefur ráðherra skipað Birnu Hafstein, formann Félags íslenskra leikara, sem aðalmann í þjóðleikhúsráð að undangenginni tillögu frá félaginu. Með skipun Birnu í þjóðleikhúsráð eiga tvær konur og þrír karlar sæti í stjórninni. Þar með verður ekki betur séð en menntamálaráðuneytið hafi fylgt ákvæðum 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Á hverju ári kallar Jafnréttisstofa eftir skýrslu frá öllum ráðuneytunum um skipan í nefndir, ráð og stjórnir. Skýrsla fyrir árið 2014 er ekki tilbúin en fljótlega verður kallað eftir upplýsingum. Þróunin hefur verið mjög jákvæð undanfarin ár en þó eru nokkur dæmi um nefndir sem ekki eru skipaðar samkvæmt lögunum. Jafnréttisstofa biður um skýringar ef ekki er rétt skipað og oft eru á því eðlilegar skýringar, t.d. ef nefndin er mjög sérhæfð.

Í skýrslunni kemur fram að hlutfall kynja í öllum nefndum allra ráðuneyta árið 2013 var 44% konur og 56% karlar. Hlutfall kynjanna í níu nefndum sem skipaðar voru á starfsárinu 2013 var 48% konur og 52% karlar. Þegar kynjakvótinn var leiddur í lög árið 2008 voru 43% starfandi nefnda í samræmi við kynjakvóta en á árinu 2013 voru 65% starfandi nefnda skipaðar í samræmi við 15. gr. Á árinu 2013 ná öll ráðuneytin tilsettum hlut kynjanna, eða 40% viðmiðunarmarkinu, í fyrsta skipti frá því að löggjöfin var sett á árinu 2008. Því ber svo sannarlega að fagna.

Velferðarráðuneytið var árið 2013 með jafnasta þátttöku kynja í starfandi nefndum og einnig eina ráðuneytið með fleiri konur en karla í sínum nefndum, 51% konur og 49% karlar. Þegar litið er til nefnda sem skipaðar voru á árinu 2013 var jafnasta kynjahlutfallið hjá utanríkisráðuneytinu þar sem kynin deila sætum jafnt á milli sín. Mennta- og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið skipuðu bæði fleiri konur en karla, 52% og 53% konur, og í öllum ráðuneytum var hlutfall kynjanna mjög jafnt þegar kemur að nýskipun. Í fyrsta skipti frá því að löggjöfin var sett árið 2008 ná þannig öll ráðuneyti tilsettum hlut kynjanna eins og ég nefndi hér áðan.