144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

skipan í stjórnir, ráð og nefndir á vegum ríkisins.

513. mál
[15:44]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma inn á þetta mál og minna líka á hópinn sem hæstv. innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, setti saman sem ber reyndar heitið starfshópur en ekki nefnd, það er kannski bara orðfærið, en það er hópur sem fjallar um hvernig jafna megi stöðu foreldra sem fara með sameiginlega forsjá barna. Þar snerist þetta við, fjórar konur og einn karl. Í sjálfu sér virðist engin sérstök ástæða liggja að baki þeirri skipan. Við höfum svo sem verið að fást við það líka hér í þinginu að við erum með nefnd, ég man ekki akkúrat í augnablikinu hvað hún heitir, sem við höfum rætt um en þar eru þrír karlar (Gripið fram í: Evrópuráðið.) Evrópuráðið, já, sem illa hefur gengið að skipa konur í þannig að við erum að glíma við þetta inni á þingi líka.

Mér þætti áhugavert að vita um hópana eða nefndirnar sem verið er að skipa á vegum hins opinbera, þ.e. hvernig hlutfall er á milli karla og kvenna eftir því um hvaða málefni er verið að fjalla hverju sinni. Það virðast vera (Forseti hringir.) að í mjúku málunum svokölluðu séu konurnar í meiri hluta en svo getur það verið á annan hátt. Það væri áhugavert að sjá þá greiningu.