144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

minnst látins fyrrverandi alþingismanns.

[13:31]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Nú verður minnst látins fyrrverandi alþingismanns. Þær fregnir bárust í morgun að Ásgeir Hannes Eiríksson, fyrrverandi alþingismaður, hefði andast á Landakotsspítala sl. laugardag, 14. febrúar, eftir langvarandi veikindi, 67 ára að aldri.

Ásgeir Hannes Eiríksson var fæddur í Reykjavík 19. maí 1947. Foreldrar hans voru Eiríkur Ketilsson stórkaupmaður og Sigríður Ásgeirsdóttir lögfræðingur. Ásgeir Hannes lauk prófi við Verslunarskóla Íslands árið 1967 og prófi frá Hótel- og veitingaskóla Íslands árið 1971. Stundaði hann upp frá því margvísleg verslunarstörf í Reykjavík og veitingarekstur, rak meðal annars Pylsuvagninn við Lækjartorg.

Ásgeir Hannes varð þegar á ungum aldri virkur þátttakandi í ýmsum félagasamtökum í höfuðborginni, ekki síst góðgerðarfélögum og samtökum sem studdu við þá sem höllum fæti standa í samfélaginu. Verslunarrekstur hans í miðbæ Reykjavíkur svo og þátttaka hans í þjóðmálaumræðu gerði hann að þekktum borgara. Skrifaði hann fjölda greina í dagblöð, var ritstjóri blaða og ritaði nokkrar bækur um hugðarefni sín.

Þegar Albert Guðmundsson, fyrrverandi ráðherra, stóð að stofnun og framboði Borgaraflokksins árið 1987 gekk Ásgeir Hannes til liðs við hann og skipaði 2. varamannssæti á lista flokksins eftir alþingiskosningarnar í apríl það ár. Tók hann sæti á Alþingi sem slíkur haustið 1988. Við afsögn Alberts Guðmundssonar snemma árs 1989 og skömmu síðar við óvænt andlát 1. varamanns, Benedikts Bogasonar, tók Ásgeir Hannes Eiríksson fast sæti á Alþingi 30. júní 1989 og sat sem alþingismaður fram að kosningum 1991, samtals á þremur þingum.

Ásgeir Hannes Eiríksson var eftirtektarverður maður, hafði skarpar skoðanir og fór ekki ávallt troðnar slóðir. Hann var annálaður sagnamaður, skemmtilegur og hnyttinn í tilsvörum sem margir hafa enn á hraðbergi. Á vettvangi þingsins var hann kraftmikill og lét að sér kveða þann tíma sem hann sat hér, enda vel heima í mörgum málum, og fróður og var vel látinn í öllu samstarfi. Hann flutti mörg þingmál og hafði jafnan á orði í skrifstofu þingsins, þegar hann afhenti mál sín til skráningar þar, að eitt mál á dag kæmi skapinu í lag.

Hlýja Ásgeirs Hannesar og hjálpfýsi er mörgum samferðamönnum hans ofarlega í huga, nú þegar hann kveður.

Ég bið þingheim að minnast Ásgeirs Hannesar Eiríkssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]