144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera stöðu framhaldsskólanna, ekki hvað síst á landsbyggðinni, að umræðuefni og það umrót og þá fullkomnu óvissu sem þar er eftir því sem maður heyrir frá skólameisturum og þeim sem þar starfa. Þetta kom mjög skýrt fram í nýliðinni kjördæmaviku en þá fær maður tækifæri til að fara í heimsóknir í kjördæmin.

Ég hef áður nefnt það hér við fjárlagagerðina að við fengum eftir langan tíma fallega hvítbók frá hæstv. menntamálaráðherra. Því miður hefur hún ekki verið til umfjöllunar, hvorki í nefndum þingsins né í opinberri umræðu, heldur niðurskurðartillögur ráðherra, fækkun nemenda sem skiptir hundruðum, 800–900 nemenda fækkun, þar sem tilkynningar eru um að ekki verði greitt fyrir nemendur sem eru 25 ára og eldri í bóknámi. Á sama tíma er skólunum gert að leggja fram áætlanir sem miða að styttingu náms til stúdentsprófs og semja áfangalýsingar án þess að fyrir liggi hvernig haga eigi iðnnámi og öðru slíku. Menn kvarta mikið yfir þessari óvissu og enginn veit að hverju er stefnt, hvort fækka eigi skólum, hvort sameina eigi skóla, sem líka hefur legið í loftinu, og fleira því um líkt.

Það keyrði um þverbak þegar bréf, sem ég fékk tækifæri til að skoða, var sent til skólameistara framhaldsskólanna. Fyrirsögnin er: „Seinkun á uppgjöri vegna nemenda á starfsbrautum og í ADL-þjónustu.“ Þar eru skólarnir í raun ásakaðir um að hafa beitt fölsunum til að fá hærri greiðslur vegna slíkra nemenda, boðað að fjárveitingar verði endurskoðaðar fyrir árið 2014 með tilheyrandi afleiðingum og í framhaldinu að gerð verði úttekt á því hvernig staðið er að málum. Látum vera að menn skoði hvernig standa á að málum en það er fullkomlega óásættanlegt að hóta skólum því að fjárframlög verði leiðrétt aftur í tímann og að viðkomandi skóli verði þá að bregðast við með frekari niðurskurði á þessu ári ef viðbótarhalli kemur á það ár, þ.e. árið 2014.

Ég treysti því að þingheimur standi vörð um þessa skóla okkar (Forseti hringir.) og fylgi þannig í reynd þeirri byggðastefnu sem þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) hefur boðað.