144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Að undanförnu hefur verið nokkur umræða í samfélaginu um stjórn fiskveiða. Komið hefur fram að vegna fjárskorts geti Hafrannsóknastofnun illa sinnt nauðsynlegum rannsóknum á loðnustofninum. Grundvöllur þeirrar ábyrgu nýtingar fiskstofna og hagkvæmni sem íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu er ætlað að tryggja er að fyrir liggi vandaðar rannsóknir á ástandi fiskstofna. Ef við tryggjum það ekki spörum við eyrinn en köstum krónunni.

Ég held að meginmarkmiðin við stjórn fiskveiða hljóti að vera að taka af allan minnsta vafa um að fiskstofnarnir eru eign almennings í landinu. Þá hlýtur að vera markmið að tryggja að fiskstofnarnir skili almenningi góðum arði. Til að það megi takast þurfa útgerðir og sjómenn að búa við öruggt starfsumhverfi og nægilegt svigrúm til skipulagningar reksturs og framþróunar og að geta boðið starfsfólki góð kjör. Aðalatriðið er að við tryggjum að eigandi auðlindarinnar, þjóðin, fái sanngjarnan hluta fiskveiðiarðsins og að hann verði nýttur til samfélagsuppbyggingar og bættra lífskjara.

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu er það réttlætismál að fólk sem býr í hefðbundnum sjávarbyggðum, sem standa illa, fái stuðning til að skjóta nýjum og sjálfbærum stoðum undir atvinnulífið. Það er sanngjarnt að hluti þess arðs sem til verður í hagkvæmum sjávarútvegi renni til slíkra verkefna. En þurfum við ekki að finna aðrar og skilvirkari leiðir en að úthluta byggðakvótum til útgerða ár eftir ár? Mér finnst við hjakka þar í sama farinu. Má ekki til að mynda breyta svonefndum byggðakvóta í peninga með því að bjóða hann upp og láta það fé renna til hlutaðeigandi samfélaga? Eykur það ekki möguleika íbúanna til fjölbreyttari atvinnuuppbyggingar í samræmi við þarfir þeirra og óskir? Væri það ekki líka lýðræðislegri og gagnsærri aðferð við ráðstöfun stjórnvalda á gæðum?

Við verðum einnig að líta í þessu samhengi til þess að þegar hefur orðið mikil tæknivæðing í veiðum og vinnslu. Það þarf nú mun færri hendur til þeirra verka en áður. Sú þróun mun halda áfram. Í því felast tækifæri til að minnka tilkostnað við veiðar og vinnslu og þar með auka arð sem má nýta til atvinnusköpunar.