144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Aftur og aftur koma fram skoðanakannanir um inngöngu Íslands í ESB. Það virðist vera sama hvaða samtök leggja spurninguna fram, þá er það sem svo að meiri hlutinn sé á móti. Í morgun voru birtar niðurstöður úr nýjustu könnun þess efnis. Þar kemur fram að tæplega helmingur landsmanna er andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu. 49,1% svarenda sagðist andvígt inngöngu landsins í ESB. 32,8% sögðust hlynnt inngöngu en 18,1% svarenda var hvorki hlynnt né andvígt inngöngu. Í könnuninni kemur einnig vel í ljós að það er enginn reginmunur á íbúum höfuðborgarsvæðisins og úti á landsbyggðinni, en þar sögðust 42% Reykvíkinga vera andsnúin inngöngu, í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar eru 45% andvíg aðild og munurinn er svo enn meiri í öðrum sveitarfélögum landsins en þar eru 59% íbúanna andvíg aðild að ESB en 21% hlynnt. Einnig hafa orðið talsverðar breytingar á afstöðu aðildarfyrirtækja Félags atvinnurekenda til evrunnar en í fyrra höfðu 57% sagst telja að taka ætti hana upp á Íslandi við aðild að ESB en nú segjast aðeins 39% á þeirri skoðun og um 40% eru á móti því en í fyrra voru það 28%.

Virðulegi forseti. Ég tel orðið tímabært að við klárum þetta mál.