144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Undanfarið hefur nokkrum sinnum, hér í ræðustól Alþingis, verið drepið á tregðu verslunarinnar við að skila hagstæðum ytri skilyrðum út í vöruverð. Meðal annars hefur verið bent á að styrking krónunnar á næstliðnum missirum hefur ekki skilað sér eins og ætti að vera og einnig hefur gætt tregðu til að skila nýaflögðu vörugjaldi á sykur.

Talsmenn verslunarinnar hafa talað mikið um það að einna helst væri færi til að lækka vöruverð á Íslandi með því að lækka verð á landbúnaðarafurðum. Það hefur því vakið sérstaka athygli mína að þegar færi hafa gefist til þess undanfarið hefur verslunin einhverra hluta vegna ekki nýtt það. Í fyrra lækkaði ríkið verð og magntolla á nautahakksefni um 2/3. Á sama tíma lækkaði heimsmarkaðsverð á nautahakki í heiminum og nautahakksefni, en á Íslandi hækkaði verð um 15%, það hækkaði um 15%. Maður veltir fyrir sér: Hvar liggur þessi hækkun? Hverjar eru undirstöður hennar eða af hverju gerðist þetta?

Í fyrradag steig formaður Félags svínabænda fram og sagði að nýlega, og ekki bara nýlega heldur í tvö skipti, bæði í fyrra og núna, hefði verð á afurðum lækkað til svínabænda. En samkvæmt verðlagskönnunum hefur verð á svínakjöti í verslunum hækkað á sama tíma.

Maður hlýtur að spyrja sig: Hvers vegna gerist þetta aftur og aftur og hvers vegna tekur verslunina ekki á sig rögg og skilar þessum (Forseti hringir.) hagstæðari ytri aðstæðum til neytenda?