144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil gera hér að umtalsefni málefni sérstaks saksóknara og fjárhags- og starfsskilyrði þess embættis og ákæruvaldsins. Ég geri ráð fyrir því að nýgengnir og afdráttarlausir dómar Hæstaréttar í svonefndu Al Thani-máli hafi eytt efasemdum sem ýmsir virtust hafa um að það væri bæði rétt og skylt að verja fjármunum í að rannsaka þau stóru mál sem urðu hér tengd hruninu og eftir atvikum fylgja þeim í gegnum dómskerfið. Menn geta varla deilt við dómarann lengur í þeim efnum og dómarinn er Hæstiréttur Íslands. Hann hefur staðfest að þarna gerðust alvarlegir hlutir sem var ástæða til að væru rannsakaðir og fylgt eftir í gegnum réttarkerfið.

Engu að síður er það svo að þrengt hefur verið að embætti sérstaks saksóknara í tvennum síðustu fjárlögum. Í fjárlögum síðasta árs og þessa árs eru embættinu settar mjög þröngar og versnandi fjárhagslegar skorður sem hafa leitt til þess að verið er að segja upp reyndum lögreglumönnum og rannsakendum og möguleikar embættisins til að fylgja þessum stóru málum áfram eftir í gegnum dómskerfið og/eða rannsaka ný mál, ljúka úrvinnslu þeirra sem í gangi eru, takmarkast. Það er í allra þágu að slíkt gerist ekki, líka sakborninga sem fá þá fyrr en ella niðurstöðu um sín mál. Mér finnst þetta mjög slæmt og niðurstaðan núna sem sýnir okkur hversu stórir og alvarlegir atburðir urðu sannanlega í aðdraganda hrunsins og í tengslum við það ætti að fá okkur til að endurskoða hug okkar í þeim efnum.

Frú forseti. Ég vil því leyfa mér að skora á fjárlaganefnd Alþingis að kalla embætti sérstaks saksóknara til sín og eftir atvikum ákæruvaldið einnig og fara yfir það með þessum embættum (Forseti hringir.) hvernig horfir í þeirra málum og leggja til við þingið (Forseti hringir.) ef þess gerist þörf að fjárveitingar til þeirra verði auknar.