144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

466. mál
[14:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á frumvarpinu, en það veldur kannski svolitlum vonbrigðum að hér er eingöngu verið að gera orðalagsbreytingar á nokkrum stöðum.

Mig langar aðeins að spyrja ítarlegar út í það sem hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir spurði um hér á undan, um fullgildingu samningsins. Skil ég það rétt að í raunveruleikanum liggi fyrir ákvörðun um að samningur verði fullgiltur, þ.e. með því að breyta einstökum lögum, en hann verði ekki lögleiddur eins og gert var við barnasáttmálann? Hann sé í rauninni ekki tækur til þess heldur verði farið í einstök lög og málum breytt hvað það varðar?

Ég geri mér grein fyrir að þetta tekur auðvitað dálítinn tíma en ég sé að hér er unnið ötullega að því og ég tek undir þau orð sem hér komu fram og hvet hæstv. ráðherra til dáða við að fullgilda samninginn, ég held að það sé gríðarlega mikilvægt. Mig langar í því samhengi að spyrja um stöðu mála sem eru þegar komin til umfjöllunar í þinginu og eru hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Þar hefði kannski þurft að grípa tækifærið og fullgilda ákvæði sem þar er verið að fjalla um og skoða með tilliti til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þetta hefur komið til umræðu í nefndinni, nú kann ég ekki nákvæmlega að nefna málið sem þar er til umfjöllunar en vonandi kemur það til ráðuneytisins. En ég hvet hæstv. ráðherra til þess að láta skoða það sérstaklega hvort grípa eigi tækifærið og fullgilda þar ákveðin ákvæði. Það hefur verið bent á að sum ákvæði þar stangist á við samninginn eða a.m.k. fari á skjön við hann og Öryrkjabandalag Íslands hefur bent á það. En aðalatriðið er kannski að fá að vita hvort verið sé að taka af skarið um að það eigi að fara í fullgildingu en ekki lögleiðingu og hvort það komi áætlun innan skamms tíma um það með hvaða hætti verði farið í þá vinnu lið fyrir lið.