144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

farmflutningar á landi.

503. mál
[15:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf spurning hvernig best sé að haga þessum almenningssamgöngum. Við höfum í gegnum tíðina líka verið með sérleyfi. Ég veit að hv. þingmaður þekkir sérleyfisakstur til dæmis á Vesturlandi, Sæmundur milli Borgarness og Akraness o.s.frv., það hefur alltaf verið og má alveg deila um hvaða leið sé best að fara í þessu. Það hafa líka verið uppi sjónarmið um að hafa sem fæstar reglur, að hafa ákveðin lágmarksskilyrði og síðan geti menn bara ekið. Þarna togast á sjónarmið.

Leiðin frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur flokkast ekki undir almenningssamgöngur, hún er ekki skilgreind sem almenningssamgöngur. Það er grundvallarsvar við því sem hv. þingmaður veltir fyrir sér. Hún er það ekki af því það er ekki samræmd gjaldskrá, af því að það er ekki föst tímaáætlun, af því hún er ekki hluti af leiðakerfi, þess vegna nefndi ég sérstaklega almenningssamgöngur frá Reykjanesbæ til Reykjavíkur með viðkomu á Keflavíkurflugvelli sem einhvers konar auglýstar leiðir.

Það er hins vegar umræða sem er ekki beint tekin í þessu frumvarpi en væri alveg ástæða til að taka og það er hvernig eigi að halda á svona opinberum leyfum yfirleitt. Sum þessara leyfa eru vegna skuldbindinga okkar að Evrópurétti, við þurfum að hafa þau út af því, en í öðrum tilvikum höfum við enn þá meira frelsi til að ákveða hluti sjálf. Við erum að stíga ákveðin skref hérna hvað varðar leigubílaaksturinn með því að hleypa mönnum inn með aðeins stærri bíla og auka þjónustuna. En ég hygg að þetta verði eitt af því sem verður tekið fyrir í nefndinni. Það er svo áleitin spurning hversu langt eigi að ganga í leyfum af þessu tagi.