144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

farmflutningar á landi.

503. mál
[15:27]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessum frumvörpum. Þau eru góðra gjalda verð og löngu tímabær. Ég ætla að gera að umtalsefni 14. gr. í frumvarpi til laga um farþegaflutninga. Það hefur nú aðeins komið til tals hér, þetta er varðandi einkaréttinn.

Þar segir:

„Vegagerðin getur veitt sveitarfélögum, byggðasamlögum og landshlutasamtökum sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga einkarétt á að skipuleggja og sjá um reglubundna farþegaflutninga á tilteknum svæðum eða tilteknum leiðum eða leiðakerfum til að tryggja þjónustu sem varðar almannahagsmuni allt árið, m.a. tíðni ferða, öryggi og kostnað.“

Þetta er gott og blessað. En einkaréttur er einungis veittur ef sýnt er fram á að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

„Þjónusta í reglubundnum farþegaflutningum á viðkomandi svæði og leiðum eða leiðakerfum sé nauðsynleg vegna almennrar, efnahagslegrar þýðingar hennar og að hún verði ekki rekin á viðskiptagrundvelli þannig að lágmarksþjónusta sé tryggð. Tryggt skal að samkeppni fái að halda sér á þeim svæðum og leiðum þar sem hún er þegar fyrir hendi.“

Viðkomandi svæðum og leiðum — við erum að fela landshlutasamtökunum að skipuleggja reglubundnar ferðir. Og þá spyr ég: Eiga þau aðeins að fá að skipuleggja þær leiðir sem enginn hagnaður er af? Ætlum við virkilega að fara að skipuleggja og festa í lög að sveitarfélögin megi sjá um þær leiðir sem tapið er á en einkaaðilar megi koma inn í þar sem einhver hagnaður er?

Ég hefði talið eðlilegt að slíkur einkaréttur væri aðeins bundinn við svæði, að skipuleggja almenningssamgöngur á svæðum og bjóða út samkvæmt reglum Evrópusambandsins, enda segir í 2. tölulið í 14. gr.:

„Vegagerðin hafi látið fara fram kostnaðar- og samkeppnismat þar sem tekið hefur verið tillit til sannanlegrar nauðsynjar á opinberum fjárframlögum á viðkomandi svæði, leiðum eða leiðakerfum.

Reglubundnum farþegaflutningum á grundvelli einkaréttar skv. 1. mgr. skal að jafnaði úthlutað með útboði í samræmi við ákvæði 40. gr.“

Það er ekkert vandamál að bjóða út svæði. Þó svo að ekki sé jafnmikið tap á öllum leiðum og jafnvel að einhver leiðin sé réttum megin við núllið finnst mér ekki hægt að leggja það á sveitarfélögin að þau fái ekki þær leiðir, þar megi einkaaðilar koma inn.

„Öðrum en einkaréttarhafa er óheimilt nema með samþykki hans að stunda reglubundna farþegaflutninga á tilteknum leiðum eða leiðakerfum eða svæðum þar sem einkaréttur til reglubundinna farþegaflutninga hefur verið veittur.“

Þetta er að sjálfsögðu bara jákvætt. En ég velti líka fyrir mér næstu málsgrein:

„Einkaréttarhafa er óheimilt að bæta við leiðum eða biðstöðvum tímabundið yfir ákveðinn árstíma, í tengslum við ferðamannastaði skv. 8. tölulið 3. gr. eða leiðir sem ekki eru þjónustaðar á ársgrundvelli nema sérstök nauðsyn krefji.“

Þetta er svolítið teygjanlegt. Ég sé ekki hvað væri hættulegt við það að sveitarfélög bæti einhverjum leiðum inn í svona yfir sumartímann eða á meðan einhvers staðar er ófært yfir vetrarmánuðina.

Hér segir líka, það kemur eiginlega á eftir:

„Heimilt er að fella niður þjónustu á biðstöð eða leið í allt að þrjá mánuði samfleytt á tímabilinu maí til september ár hvert ef eftirspurn er engin.“

Það eru þá þrír mánuðir þarna, sem mörkin eru. En ef þörf skapast skyndilega fyrir einhverja leið þá sé ég ekki alveg hættuna þó að sveitarfélögin taki það upp hjá sjálfum sér að þjónusta þær.

Ég er afar ósáttur með þetta og treysti því að í meðförum þingsins verði þetta lagfært, það er ekki mikið sem þarf að stroka út. Það eru þessar leiðir, það er eitt orð sem ég hefði haldið að þyrfti að strika út þarna, enda er það líka markmið frumvarpsins. Markmiðið með þessum breytingum var að tryggja góða almenningsþjónustu þannig að til yrði raunhæfur valkostur við einkabílinn. Við erum öll sammála um að við erum að efla almenningssamgöngur. Atvinnusvæðin eru að stækka og til að tryggja byggð í landinu, í þessum minni kjörnum sem eru nálægt stærri byggðarlögum, þá skiptir öllu máli að sveitarfélögin geti haldið uppi samgöngum á milli þessara staða. Og þó svo að þau mundu hagnast á einhverri einni leið hefði ég haldið að það væri bæði ríki og sveitarfélögum til hagsbóta að geta látið þær bakka hver aðra upp, þessar leiðir.

Ef ég gríp aðeins hér niður:

„Þjónustan sem stefnt er að skal vera nauðsynleg vegna almennrar efnahagslegrar þýðingar hennar, en með almennri efnahagslegri þýðingu er átt við að þjónustan sé efnahagsleg starfsemi sem skilgreind hefur verið af hálfu hins opinbera sem mikilvæg þjónusta í þágu almennings og sem telja má að verði ekki veitt, eða ekki veitt undir sömu skilyrðum, ef ekki væri fyrir aðkomu hins opinbera.“

Eru ekki meiri líkur á því að almenningssamgöngur verði sjálfbærar og hvorki ríki og sveitarfélög þurfi að borga með þessum leiðum í framtíðinni ef það kemur einn og einn leggur sem ekki þarf að borga með? Ég skil ekki alveg hættuna við það.

Hér segir:

„Þá þarf að meta áhrif einkaréttarins á samkeppni og hvort líkur séu á að fyrirkomulagið hafi skaðleg samkeppnisleg áhrif. Byggjast þessi atriði á meginreglum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1370/2007.“

Ég leyfi mér að fullyrða að þetta er alveg innan regluverks EES. Ég trúi því að almenningssamgöngur séu á stærri svæðum erlendis en við erum að reyna að binda þetta hér við. Ég veit ekki annað en að það séu almenningssamgöngur, hvort sem er með járnbrautum eða rútum, út á flugvelli í nágrannalöndunum. Á Norðurlöndunum veit ég ekki annað en að maður geti farið með lest alveg út á völl og það sé hluti af almenningssamgöngum.

Ég treysti því að í meðförum þingsins sníðum við agnúana af þessu frumvarpi og gerum sveitarfélögunum kleift, gerum það alla vega ekki íþyngjandi fyrir þau, að þróa sínar almenningssamgöngur þannig að einstaka leggir verði ekki pikkaðir af þeim þó svo að þar verði einhver hagnaður.