144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

farmflutningar á landi.

503. mál
[15:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og ég sagði í lok ræðu minnar áðan er hægt að fara ýmsar leiðir í skipulagningu á almenningssamgöngum og í bílamálunum í heild sinni. Svo er alveg spurning hversu mikið regluverk eigi að vera um þetta. En við skulum ekki gleyma því, og ég vil að það komi fram, að almenningssamgöngur úti á landsbyggðinni eru engin gróðavél, þær eru það ekki. Það hefur á margan hátt verið þungt fyrir landshlutasamtökin að sinna þeirri þjónustu sem á þau eru lögð þannig að menn skulu líka hafa það í huga.

Ég get alveg nefnt dæmi í því efni. Víða á Norðurlandi hefur þetta verið erfitt, á Austurlandi líka, maður þekkir það. Menn eru að glíma við að koma þessu af stað, þessu nýja kerfi, landshlutakerfi, en gegnum tíðina hefur þetta alltaf verið mjög erfitt. Það er ástæðan fyrir því að sérleyfin urðu til á sínum tíma. Ríkið veitti sérleyfi og styrkti þau sérstaklega, þau voru styrkt úr ríkissjóði af því þau stóðu ekki undir sér. Það var ekki af neinni annarri ástæðu sem það var.

Mér finnst allt í lagi að menn hafi það í huga af því að ég ætla ekkert að fara að halda því fram að þetta sé fullkomið frumvarp, en hér er verið að gera tilraun til að koma með lágmarksþjónustu á tilteknum leiðum til að halda uppi almenningssamgöngum. Það er lágmarksþjónusta sem verið er að tryggja þarna. Það er það sem sveitarfélögin eru að takast á hendur að veita lágmarksþjónustu á tilteknum svæðum.

Síðan er lögð mikil áhersla á að hægt sé að tengja vel á milli svæða þannig að þetta snúist á endanum allt um það að farþeginn komist greiðlega ferða sinna innan svæða og milli svæða og sjái það í áætlunum fyrir fram; ekki að leiðin sé að koma inn og út um gluggann, ef svo má segja, heldur geti menn skipulagt ferðalög sín á grundvelli áætlana. Ég vil bara halda þessu til haga í þessari umræðu.