144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

farmflutningar á landi.

503. mál
[15:40]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra Ólöfu Nordal fyrir að taka þátt í umræðunni. Það er mergur málsins að þessar almenningssamgöngur eru svo þungar fyrir sveitarfélögin. Einmitt þess vegna finnst manni svo grátlegt að það skuli standa þarna svart á hvítu að ef einhvers staðar er leggur sem ekki er tap á þá eigi að vera hægt að hirða það af.

Ég hefði getað séð fyrir mér að landið væri eitt samgöngusvæði. Við vitum öll að málið snýst allt um rútuna út á flugvöll þar sem mikil umferð er en ekki er tap á þeirri leið. Þess vegna ætluðu sveitarfélögin á Suðurnesjum að nota þann legg til efla aðra leggi sem mikið tap er á til að reyna að byggja upp öflugar almenningssamgöngur á Suðurnesjum. Atvinnuástandið er svo misjafnt þar eftir svæðunum, hvort þú ert á utanverðum skaganum eða innanverðum eins og til dæmis í Grindavík.

Það er svo mikið í húfi að við getum byggt upp öflugar almenningssamgöngur. Ég hefði viljað sjá að maður á Akureyri eða á Raufarhöfn gæti keypt sér strætómiða út á Keflavíkurflugvöll, það væri bara einn miði rétt eins og maður kaupir lestarmiða á Englandi.