144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

farmflutningar á landi.

503. mál
[15:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það má svo sannarlega fallast á það með hv. þingmanni að töluvert sé um leyfisskylda starfsemi á sviði farþegaflutninga í víðum skilningi og það er ekki nýtt af nálinni hér á Íslandi. Þannig hefur það ávallt verið, liggur mér við að segja. Um mjög langa hríð hefur svo verið að menn þurftu lengst af að hafa sérleyfi styrkt úr ríkissjóði, eins og ég nefndi í andsvari áðan, að tilteknum leiðum úti á landi. Þarna togast á ólík sjónarmið, þau sjónarmið að halda þurfi uppi tilteknum lágmarkssamgöngum í landinu, og frumvarpið er að vissu leyti að bregðast við því áfram eins og hefur verið gert lengi, og núna eru sveitarfélögin og landshlutasamtök að gera það. Hv. þingmaður nefndi að það væri hennar ósk eða vilji miklu frekar að einkaaðilar gerðu það, og ég get fallist á það með hv. þingmanni. Ég get líka fallist á að ástæða sé til þess, og ég nefndi það í umræðunni, að menn fari að ræða það hvort ganga eigi lengra í að losa undan leiðum. En það eru þó stigin skref í þá átt í frumvarpinu. Þau eru kannski ekki endilega óskaplega stór en þau eru samt sem áður stigin. Ég vil að því sé haldið til haga í umræðunni og þegar við höldum áfram að fjalla um málið að menn eru að stíga slík skref.

Leigubílaakstur hefur verið með þeim hætti að menn hafa þurft að vera á stöð og takmörk hafa verið á því um margra ára skeið. Það hefur sannast sagna verið þannig að mjög erfitt hefur verið að hefja þá umræðu um að frelsa algjörlega leigubílaaksturinn. Ég er hins vegar algjörlega reiðubúin til að taka þá umræðu. Mér finnst til lengri tíma litið alveg koma til greina að menn veiti mun meira frelsi þar, og ég get nefnt fleiri þætti en í þessu efni, af því að við erum að takast á við þessi ólíku sjónarmið hversu langt eigi að ganga (Forseti hringir.) í frelsisátt og í hinu hversu mikla almenningssamgönguþjónustu við teljum að við þurfum að hafa. (Forseti hringir.) Þetta frumvarp fer einhvers konar millileið, en ég get tekið undir með hv. þingmanni að víðar mætti ganga lengra.