144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

farmflutningar á landi.

503. mál
[16:04]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þetta. Ég spurði nú vegna þess að ég fæ ekki betur séð en að í því ákvæði til dæmis falli reiðhjól þar undir. Það er farartæki, umhverfisvænt farartæki sem 32. gr. er einmitt sérstaklega ætlað að taka til. Ég velti bara fyrir mér, af þetta er þá nýr samgöngumáti og þessir tuk-tuk vagnar eru líka nýr samgöngumáti, ég skil það þannig að þetta séu einhvers konar vélknúin tæki, opin, eins og maður hefur séð erlendis. Það hefði verið svo skemmtilegt ef menn hefðu einhvern veginn getað unnt nýjum samgöngumáta að koma fram á sjónarsviðið án þess að þurfa að setja um það lög eða einhverjar reglur sérstaklega, ef ekkert hefur kallað sérstaklega á það. Þá á ég við þau tæki auðvitað sem eru ekki hættuleg, þetta eru farartæki sem fara lúshægt, (Gripið fram í: Á 50 km.) á 50 km hraða. Reiðhjól geta að vísu farið hraðar, ég skal ekki segja um það, en ég held að reiðhjól falli þarna undir. Vagnar sem dregnir eru áfram af reiðhjólum hljóta að falla þarna undir líka (Gripið fram í: Í atvinnuskyni.) í atvinnuskyni.

Þess vegna velti ég fyrir mér hvort það hefði nú ekki verið skemmtilegra að una þessum fararmáta, gefa honum að minnsta kosti smá svigrúm í einhvern tíma til að fá að vera í friði án þess að löggjafinn og stjórnvöld fari að skipta sér af þeim samgöngumáta. Ég vænti þess að hv. nefnd, samgöngunefnd, sem væntanlega fær frumvarpið til umfjöllunar, skoði það sérstaklega.