144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

farmflutningar á landi.

503. mál
[16:06]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. innanríkisráðherra Ólöfu Nordal kærlega fyrir að leggja fram þetta frumvarp. Það hefur verið nokkuð lengi í smíðum í ráðuneytinu og hefur nú loksins verið lagt fram.

Ég ætla aðallega að ræða almenningssamgöngur í ræðu minni og fara aðeins yfir þá hluti sem að þeim snúa. Það var fyrir fáum árum síðan að Vegagerðin kom þessum málaflokki yfir til sveitarfélaganna með þeim góða árangri að almenningssamgöngur, sérstaklega á landsbyggðinni, margefldust og er hægt að benda á tölur í því sambandi þar sem farþegum á landsbyggðinni fjölgaði um tugi og hundruð prósenta. Á Suðurlandi hefur farþegum Strætó fjölgað úr um 80 þúsund á ári í 230 þúsund á þremur árum. Það sýnir hvað þetta er mikil lyftistöng fyrir hinar dreifðu byggðir.

Ég vil í upphafi ræðu minnar minnast á að í okkar strjálbýla og erfiða landi, þar sem búa 330 þúsund manns, er ekkert grín að reka almenningssamgöngur þar sem við erum að reyna að þjónusta fólk um allt land, frá dreifðustu byggðum til stórborgarinnar Reykjavíkur, ef ég orða það svo. Vegagerðin fór ekki fram á sérstaka lágmarksþjónustu, hún lagði þetta í hendur sveitarfélaganna og með samstilltu átaki hafa sveitarfélögin byggt upp mjög öflugt almenningssamgöngukerfi sem byggir á því að Vegagerðin hefur lagt nokkurt fjármagn til leiða til höfuðborgarinnar og sveitarfélögin hafa síðan með því að hafa fjölfarnari leiðir staðið undir kostnaði við að fara inn í fámennið. Á því byggir kerfið í grófum dráttum.

Það er mjög mikilvægt kerfinu að fjölförnustu leiðirnar standi undir kerfinu. Á Suðurlandi er leiðin Selfoss–Reykjavík náttúrlega langstærsti bitinn og heldur uppi samgöngum upp í sveitirnar og austur um allt land. Þannig er það á Suðurnesjum og þannig er það raunar hjá Strætó í Reykjavík. Það eru ekki allar leiðir Strætó bs. sem standa undir sér. Það eru aðeins Fell og Hlemmur og Hafnarfjörður–miðbær og slíkar burðarleiðir. Ef það á að fara að taka burðarleiðirnar út úr kerfinu spyr ég: Ætla menn að gera það í Reykjavík líka? Munum við þá að horfa upp á samkeppni hér þar sem allir rútukallar sem eiga rútur geta komið þeim á götuna og byrjað að keyra í samkeppni hver við annan? Ég held að það sé ekki það sem menn vilja. Ég veit að kerfið hér er heildstætt og gott samkvæmt þeim lögum sem fyrir liggja, en ég vil líka geta þess að kerfið er boðið út í mörgum pörtum og Strætó bs. býður út einstakar leiðir í kerfinu. Það eru því margir aðilar að keyra fyrir Strætó bs. í höfuðborginni og nágrannabyggðum.

Fyrir hvern er svo strætó? Hann er fyrir unga fólkið, hann er fyrir skólabörnin, unglingana, eldri borgarana og þá sem eiga ekki bíl, þá sem ekki hafa ráð á að eiga bíl. Strætókerfið er fyrir þá. Og biðstöðvarnar og tímaáætlanir miðast við skólana, vinnustaðina, opinberar byggingar og stofnanir. Það er stoppað við skólana, það er stoppað við sjúkrahúsin, það er stoppað við apótekin í bæjunum. Þannig er kerfið rekið, til þess að fólkið geti nýtt sér það sem best. Þetta er þjónusta við þá sem þurfa á henni að halda og með góðu kerfi hefur fjölgunin verið algjör og mikil. Þannig hefur okkur, sem byggðum upp þetta kerfi, tekist að tengja fámennustu byggðirnar við stóru kjarnana. Það varð algjör breyting þegar sveitarfélögin tóku þennan málaflokk yfir.

Með leyfi virðulegs forseta ætla ég að vitna í fyrsta lið 14. gr. frumvarpsins sem hér liggur fyrir:

„Þjónusta í reglubundnum farþegaflutningum á viðkomandi svæði og leiðum eða leiðakerfum sé nauðsynleg vegna almennrar, efnahagslegrar þýðingar hennar og að hún verði ekki rekin á viðskiptagrundvelli þannig að lágmarksþjónusta sé tryggð. Tryggt skal að samkeppni fái að halda sér á þeim svæðum og leiðum þar sem hún er þegar fyrir hendi.“

Ég er aðeins búinn að fara yfir þetta. Með öðrum orðum á að taka þetta út úr kerfi sveitarfélaganna og afhenda fáum rútufyrirtækjum í landinu, örfáum, tveimur, kannski þremur, sem geta tekið þátt í þessu af einhverjum krafti. Það yrði algjör afturför fyrir sveitarfélögin. Það er í rauninni spurning hvort sveitarfélögin hafi þá nokkurn áhuga lengur á að vera með þennan málaflokk, sem er svo mikilvægur fólkinu í byggðunum. Ég held að í umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd þurfi nefndin að taka þennan lið til skoðunar og það hvort við viljum hafa þetta svona í okkar fámenna landi. Þetta var einhvern tíma orðað þannig af góðum manni að verið væri að einkavæða hagnaðinn en ríkisvæða tapið. Mér fellur það ekki vel. Ég er í eðli mínu talsmaður samkeppni en ég held að í fámennu landi eigi hún ekki endilega alltaf við, það eigi ekki alltaf við þegar á að tryggja hagsmuni fólksins í góðum samgöngum.

Mig langar að víkja að því að flugið er ekki inni í þessu. Mér finnst að innanlandsflugið eigi að vera hluti af almenningssamgöngum, jafn mikilvægt og það er landsbyggðinni. Við höfum verið að minnka þjónustuna á sjúkrahúsunum allt í kringum landið og fólkið þarf að sækja meiri þjónustu til höfuðborgarinnar, til Landspítalans og annarra stofnana sem veita sérhæfða þjónustu, og þá er mikilvægt að innanlandsflugið verði hluti af almenningssamgöngukerfinu. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt sem og að tryggja flugvöllinn í Reykjavík, þó að það sé alltaf barátta um að koma honum í burtu. Það er mjög einkennileg árátta.

Það er kannski fyrst og fremst þetta sem ég hef viljað tala um varðandi 14. gr. Mig langar líka, og get ekki vikist undan því, að ræða um flugrútuna sem er sérstakt verkefni sem Vegagerðin fól sveitarfélögunum á Suðurnesjum að reka. Ástæðan fyrir því að það var gert var sú að Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hafði staðið sig vel í rekstri strætókerfa og eðlilegt var að þeir tækju þetta yfir. Nú hefur komið fram að flugrútan flokkist ekki undir almenningssamgöngur. Við höfum ekki verið sammála því. Við höfum í þessu frumvarpi skilgreiningar á því hvað eru almenningssamgöngur og hvað er ferðamannastaður. Það hefur verið tekist á um það hvort Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli sé ferðamannastaður eða almenningssamgöngustaður. Við höfum hallast að því að þar tengdust almenningssamgöngur, vegna þess að skilgreiningin á ferðamannastað í frumvarpinu er: Staður sem er vinsæll viðkomustaður ferðamanna vegna náttúru, sögu og menningar þar sem þjónusta á staðnum tekur mið af þörfum ferðamanna. Þetta á ekki við um Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Þetta átti við um Bláa lónið og það var akkúrat þetta sveitarstjórnarfólk sem var treyst fyrir þessari ábyrgð. Það tók þá ákvörðun að vera ekki í samkeppni með ferðamenn þangað. Það var að sjálfsögðu gefið eftir og þangað fara hópferðabifreiðar mörgum sinnum á dag. Meðan sveitarfélögin ráku rútuna í flugstöðina stóð heldur ekki á því að hópferðabifreiðar sæktu farþega sína upp á Keflavíkurflugvöll og keyrðu þá síðan um landið. Ég verð að segja að ég vona að kæra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum á hendur innanríkisráðuneytinu eða innanríkisráðherra skaði ekki þann ráðherra sem nú er við störf, vegna þess að hún kom hvergi nálægt því að taka flugrútuna af sveitarfélögunum á Suðurnesjum. Og varðandi þá áætlun sem flugrútan fylgdi var alveg ljóst að það var gefin út tímasett tímaáætlun fyrir hana. Það voru einar átta eða tíu ferðir á dag sem tímasettar voru frá Reykjavík á morgnana og frá Keflavík síðdegis. Það voru líka skilgreindar sérstakar biðstöðvar í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og suður frá, auk þess sem skilyrði Vegagerðarinnar var allan tímann að það yrði rúta við lendingar hverrar einustu flugvélar. Og þannig var það, það var sama hvort það var ein vél að lenda á miðnætti eða um miðja nótt, alltaf var rúta tiltæk.

Það er líka mikilvægt að halda uppi þjónustunni þegar lítið er að gera, vegna þess að það eru nógir um það að mæta þegar flugstöðin er full af farþegum til að keyra þá í bæinn, en það hefur skort á það að t.d. þegar Londonvélin kemur á miðnætti með 50 farþega á veturna sé eins mikill áhugi á að mæta á flugvöllinn og keyra þá farþega í bæinn. Við skulum bara hafa þetta allt saman innan málsins meðan við erum að fara í gegnum það. Ég fagna því og vil hrósa ráðherranum fyrir það að gefa okkur kost á að taka þátt í þessari umræðu og fara yfir málin hérna.

Áður en ég lýk ræðu minni vil ég tala um samkeppni á þessari leið. Hún átti að felast í því að leiðin væri boðin út og þar átti samkeppnin að verða. Ef það hefði orðið hagnaður á þessari leið átti að nýta hann til að greiða niður almenningssamgöngur á Suðurnesjum og jafnvel hafði verið talað um að sú niðurgreiðsla færi á önnur sveitarfélög í landinu, enda væri þetta hluti af öllu landinu þegar tenging við flugvöllinn er annars vegar.

Annars staðar á Norðurlöndum er þetta víðast hvar þannig að þar eru sérstakar flugrútur reknar og boðnar út af sveitarfélögunum. Það hafa fallið dómar um þau mál hjá Evrópusambandinu og því hefur verið hnekkt að þetta þurfi að vera í sérstöku einkaumhverfi. Ég held að við þurfum að gæta þess að Strætó, hvort sem það er í Reykjanesbæ eða á Selfossi eða hvaðan hann kemur, sé ekki að tína upp ferðamenn og fara með þá um allt land. Þetta eru farþegar sem fara hringinn í kringum landið og vilja stoppa á dýrðarstöðum í kringum landið og hafa fararstjóra með sér í ferðum. Það eru auðvitað ekki neinar almenningssamgöngur og Strætó á ekkert að vera hirða upp slíka farþega, ekki frekar en að hópferðaleyfishafar eiga að hirða upp farþega sem eru að bíða eftir strætó, en á því hefur verið misbrestur. Svona slagur milli fyrirtækja sem eru að reyna að standa sig í rekstri er náttúrlega alveg óþolandi.

Í lok dagsins segi ég: Það er margt ágætt í þessu frumvarpi en við þurfum að tryggja almenningssamgöngur í landinu, það er mikilvægast. Sveitarfélögin í landinu hafa sýnt á síðustu mánuðum og síðustu árum að þau hafa byggt upp glæsilegt kerfi sem uppfyllir kröfur íbúa í landinu. Það er mikilvægt fyrir okkur í þinginu að standa með sveitarfélögunum og standa með fólkinu í landinu um öflugar almenningssamgöngur.