144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. þingmanni fyrir spurningarnar.

Það var tekist á um þetta í nefndinni og hárrétt sem þingmaðurinn minntist á að það hefði verið hægt að fara þá leið að stóriðjan hefði verið þátttakandi í niðurgreiðslu á þessu rafmagni. Það er alveg hárrétt eins og fram kemur hér. Það var ekki vilji til þess í nefndinni enda hefði samkvæmt því sem ég best veit þurft töluverða breytingu á lögum og samskiptum við stóriðjuna til að það næði fram að ganga. Ég er ekki alveg nógu klár á þeim samningum. Slíkir samningar voru eitthvað tímabundnir. En ég tek undir það að það bitnar auðvitað á fáum þegar þessi leið er valin, það er alveg ljóst. Þess vegna var ég tiltölulega spenntur fyrir því að fara inn í heita vatnið. En þingmenn höfuðborgarsvæðisins voru ekki tilbúnir til þess og þannig er hreppapólitíkin á Íslandi í dag að menn vildu ekki fara þá leið. Þá hefði gjaldið náttúrlega verið afar lágt á hvern og einn, það er alveg ljóst. Þetta er því sú niðurstaða sem við í meiri hlutanum komumst að og liggur hér fyrir.