144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvers vegna hann telji að það sé réttlætanlegt að stórfyrirtæki taki ekki þátt í þessari samfélagslegu jöfnun, hvernig hann geti stutt það. Þetta þýðir mikla hækkun fyrir þau byggðarlög þar sem kynt er upp með fjarvarmaveitu, þar sem rafmagnskynding er að mestu leyti, til dæmis í Ólafsvík og í Vestmannaeyjum; þetta þýðir mikla hækkun fyrir ýmis iðnfyrirtæki á landsbyggðinni, á þessum svæðum, en ekki jöfnun til lækkunar. Hvers vegna telur hann að þær tillögur sem við í 2. minni hluta leggjum til, skattur á raforku og heitt vatn, sem nemur í dag tæpum 0,13 kr. á hverja kílóvattstund af seldri raforku og 2% af smásöluverði á heitu vatni — út af hverju það sé ekki eðlilegt að þegar þessi skattstofn rennur út um næstu áramót verði hægt að nýta hann til að stíga skrefið til fulls og jafna bæði dreifingu á raforku og niðurgreiðslu til húshitunar svo að þessir þættir verði að fullu jafnir hvar sem fólk býr á landinu.

Ekki er þörf á því að taka þetta í mörgum skrefum ef allir mundu leggjast á sveifina til að ná þessum jöfnuði fram. Það liggur ekkert fyrir hvernig farið verður í að auka framlag til niðurgreiðslu á húshitun eins og þetta liggur fyrir núna. Í nefndaráliti meiri hlutans er talað um að leggja eigi fram þingsályktunartillögu til að fá fram afstöðu þingsins til stefnumótunar til lengri tíma og að niðurgreiða að fullu kostnað við að flytja raforku frá árinu 2016. Það liggur ekkert fyrir hvernig það verður fjármagnað.