144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[17:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Starfshópurinn, sem vitnað hefur verið til í þessari umræðu, sem skilaði tillögum sínum og kynnti þær fyrir fjárlaganefnd og atvinnuveganefnd árið 2012 horfði einmitt á málið þannig að þarna væri um stórt samfélagsverkefni að ræða. Það skiptir miklu máli að jafna raforkureikninga og húshitunarreikninga, skiptir máli fyrir búsetu fólks og hvar fólk ákveður að setjast að, og fyrir byggð og atvinnu í landinu. Þess vegna leggur hann til að sett sé ákveðið gjald á hverja orkueiningu. Með því að gera það sé hægt að jafna bæði rafmagn og húshitunarkostnað um landið. Mér leist ákaflega vel á þessar tillögur. Um þær var góð sátt í þinginu þótt ekki hafi tekist að leiða þær í lög, því miður, og hægt er að skoða það af hverju það frumvarp endaði ekki hér í atkvæðagreiðslu.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hv. atvinnuveganefnd hafi farið vel yfir það hvaða áhrif þessi hækkun hefur á vísitöluna í landinu og á verðtryggð lán heimilanna? Og hvort tillögurnar, þær sem hér eru fram bornar, hafi verið reiknaðar út samanborið við tillögur samstarfshópsins sem lagði fram tillögurnar árið 2012?