144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[17:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel reyndar mjög mikilvægt að það sé athugað hvaða áhrif frumvarpið, verði það að lögum, hafi á vísitöluna því að það er alveg ljóst að það mun hækka raforkureikning heimila og stofnana í þéttbýli og allra fyrirtækja í þéttbýli sem nýta sér dreifikerfin. En stóriðjan er skilin út undan, hún á ekki að taka þátt í þessu samfélagslega verkefni og eins og hv. þingmaður talaði um áðan býr stóriðjan við ívilnanir ýmiss konar. Finnst hv. þingmanni þá rétt að þegar lagt er gjald á alla sem kaupa raforku í landinu, að stóriðjan sé skilin þar út undan bara af því að hún nýtir ekki dreifikerfi? Þetta virkar á mig eins og verið sé að finna leið til að hlífa stóriðjunni við því að taka þátt í að jafna raforku í landinu, taka þátt í þessu mikla samfélagslega verkefni og jafna búsetuskilyrði.

Mér finnst það vera óréttlátt og mér finnst það röng hugsun. Ég trúi ekki öðru en að þessu hafi verið mótmælt í nefndinni. Ég vil spyrja hv. þingmann hver viðbrögð fulltrúa atvinnulífsins, sem komu fyrir nefndina, voru varðandi þetta. Hver voru viðbrögð til dæmis bakara sem nota mikla raforku? Þetta hlýtur að skipta máli fyrir rekstrarumhverfi slíkra fyrirtækja. Hvaða áhrif hefur þetta á stóra stofnun eins og Landspítalann? Þetta hlýtur hv. atvinnuveganefnd að hafa farið nákvæmlega yfir. Ég vil biðja hv. þingmann um að segja mér frá þessu.