144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[17:59]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það stendur í frumvarpinu að það sé mat Hagstofu Íslands að jöfnunargjald á raforkudreifingu, samkvæmt frumvarpinu, hafi ekki áhrif á vísitölu neysluverðs, svo framarlega sem það gengur eftir að allt gjaldið sem verði innheimt fari óskert í niðurgreiðslu á dreifikostnað á tilteknum svæðum. En samanburðurinn, ég man ekki til hans.

Stóriðjan býr við ívilnanir, já, við erum alveg sammála um það. En hv. þm. Oddnýju Harðardóttur er oft tíðrætt um auðlindaskatt en ég hef aldrei heyrt það nema bara þegar verið er að tala um sjávarútveg, (Gripið fram í: Það er rangt …) þá er verið að tala um auðlindagjald. Ja, ég man ekki til þess, nei. Við getum alveg velt því upp hvort við eigum að fara að taka auðlindagjald af þessum fyrirtækjum, (Gripið fram í.)en þá spyrjum við bara, eins og með raforkufyrirtækin sem framleiða rafmagn, nota vatnsorku, hvar endar það? Endar það ekki á notendum? Hitaveiturnar, ef við ætlum að setja auðlindaskatt á hitaveiturnar, hverjir borga það? Eru það ekki notendur? Það erum við sjálf. Það er þjóðin sjálf sem er að nota þetta heita vatn til að hita hjá sér húsin. (Forseti hringir.) Er þá ekki verið að taka úr einum vasanum (Forseti hringir.) og setja í annan?