144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

mannanöfn.

389. mál
[19:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa eindregnum stuðningi við þá afstöðu sem að baki málinu liggur, þá að það sé sjálfsagður og eðlilegur réttur hvers manns að fá að ráða því sjálfur hvað hann heiti, og að sú hugmynd að hið opinbera gefi út einhverjar skrár um hvað sé leyfilegt í því efni séu sannarlega barn síns tíma og fullkomlega úreltar árið 2015. Og einnig að það sé einhver nefnd fróðari manna en maður sjálfur er sem eigi að ákveða hvort og hvað maður má heita.

Ég hef raunar verið stuðningsmaður málsins frá því það var fyrst tekið upp á Alþingi. Ég hygg að það hafi verið á kjörtímabilinu 2003–2007 sem Björn Ingi Hrafnsson, þá varaþingmaður en nú kunnur fjölmiðlakóngur, flutti mál samkynja um að leggja af þessa löggjöf en það náði því miður ekki fram að ganga frekar en þetta mál nú ítrekað hefur og er þó löngu kominn tími til þess að hætta, ég vil leyfa mér að segja þessari vitleysu. Auðvitað voru það metnaðarfullar hugmyndir aldamótakynslóðar í upphafi 20. aldarinnar að standa vörð um íslenska menningu og séríslenskar hefðir og annað slíkt sem urðu til þess að hér var á þessu þingi sett löggjöf fyrir meira en 100 árum, árið 1914, um það hvernig þessum málum ætti að vera skipað. En framkvæmdin á þessu hefur auðvitað líka verið með þeim hætti að það er löngu síðan orðið þannig að engin leið er að skilja hvers vegna eitthvað var leyft og eitthvað annað var bannað. Röksemdirnar sem menn í góðri trú lögðu af stað með einhvern tíma í upphafi síðustu aldar eru einhvern veginn löngu orðnar mótsagnakenndar og rökstuðningur fyrir samþykktum jafnt sem synjunum orðinn illskiljanlegur oft og einatt fyrir utan það að hitt er sjálfsagt að hver einstaklingur ráði sjálfur nafni sínu. Það kann að þurfa að setja því einhverjar takmarkanir hversu oft maður getur ráðið nafni sínu á ævinni. Það kunna að vera einhverjir samfélagslegir hagsmunir fyrir því að menn geti ekki ótakmarkað oft skipt um auðkenni í tíma og ótíma eins og nafn manns er, en í meginatriðum hljóti maður að ráða sínu nafni. Mér þykir málið hafa tekið framförum frá því að það var flutt síðast í því að ónefni eru eftirlátin sem eðlilegt er barnaverndaryfirvöldum. Þær áhyggjur sem margir hafa af góðum hug haft fyrir ófæddum börnum sem kynnu að vera skírð ónefnum af foreldrum sínum, þeim á auðvitað ekki að mæta í einhverri sérstakri mannanafnalöggjöf. Ef foreldrar skíra börn sín ónefnum þá er það náttúrlega bara mál sem varðar við barnavernd eins og framsögumaður fór ágætlega yfir hér.

En ég skora á þá nefnd sem málið fær til umfjöllunar að láta sér ekki nægja að senda það út til umsagnar. Þetta er fyrir löngu síðan orðið til vansa fyrir löggjafarþingið að banna fólki að heita það sem það vill heita af engum skiljanlegum ástæðum og ekki aðeins í því tilfelli sem framsögumaðurinn vísaði til heldur í svo fjölmörgum tilfellum algerlega óþolandi afskipti yfirvalda af friðhelgi einkalífs fólks og atriðum sem eiga að vera í höndum hvers og eins en ekki ríkisins.