144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

mannanöfn.

389. mál
[19:12]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vildi aðeins koma hingað upp og lýsa yfir eindregnum stuðningi við frumvarpið. Ég vona að það nái fram að ganga og vísa til þess að ég hef verið ein af þeim Íslendingum sem hafa þurft að glíma við mannanafnanefnd út af nafni sem ég ákvað að gefa syni mínum. Það náðist í gegn en það var langur slagur, algerlega fáránlegur. Ég hef heyrt af mörgum fullorðnum sem hafa viljað samræma nafn sitt við það til dæmis ef þeir hafa gifst eða verið búsettir erlendis. Þegar fólk er fullorðið finnst mér að sjálfsákvörðunarréttur þess hvað það heitir eigi að vera í forgrunni. Ég vona bara heitt og innilega, miðað við hverjir eru á málinu en það er fólk úr öllum flokkum, sýnist mér, eða nánast öllum flokkum, að ekkert verði því til fyrirstöðu að málið verði klárað og afgreitt í vor.