144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

fordæming pyndinga leyniþjónustu Bandaríkjanna.

465. mál
[19:15]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um að fordæma pyndingar leyniþjónustu Bandaríkjanna. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir, Árni Páll Árnason, Óttarr Proppé, Helgi Hrafn Gunnarsson, Össur Skarphéðinsson, Ögmundur Jónasson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Katrín Júlíusdóttir, Jón Þór Ólafsson, Brynhildur Pétursdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Róbert Marshall. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir að láta sig þetta mál varða. Ég vona að einhverjir þingmenn frá Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki sjái sér fært að styðja þetta mál þegar því verður á endanum vísað til hv. utanríkismálanefndar.

Samkvæmt tillögunni fordæmir Alþingi harðlega pyndingar sem leyniþjónusta Bandaríkjanna hefur staðið fyrir og bandarísk stjórnvöld látið viðgangast frá hryðjuverkaárásunum 11. september 2001.

Forseti. Í greinargerð með ályktuninni kemur eftirfarandi fram:

Öldungadeild Bandaríkjaþings birti nýverið skýrslu sem lýsir hrottalegum pyndingum á mönnum sem fangelsaðir voru í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001 og framkvæmdar hafa verið undir stjórn CIA. Í skýrslunni er lýst hræðilegri meðferð á fólki á öllum aldri af báðum kynjum og ýmsu þjóðerni. Meðal annars er því lýst hvernig föngum var haldið vakandi, jafnvel í heila viku, stundum standandi, stundum með handleggi hlekkjaða fyrir ofan höfuð. Sumum föngum var gefinn vökvi í gegnum endaþarm, án læknisfræðilegrar nauðsynjar. Var þetta framkvæmt með offorsi, sem leiddi í að minnsta kosti einu tilviki til skemmda á endaþarmi. Einum fanga, Majid Khan, var gefinn matur í gegnum endaþarm. Hummus, pastasósu, hnetum og rúsínum var maukað saman og troðið inn í endaþarminn. Gul Rahman var haldið vakandi í tvo sólarhringa. Hann var látinn þola ærandi hávaða í algeru myrkri og einangrun, settur í kaldar sturtur og hlekkjaður við vegg í stellingu sem neyddi hann til að leggjast á kalt gólf. Föt voru tekin af honum til að refsa honum fyrir að vera ósamvinnuþýður og var hann einungis í peysu en nakinn fyrir neðan mitti. Vegna þessarar ómannúðlegu meðferðar lést Gul Rahman úr ofkælingu. Tveir fangar með fótbrot, einn með tognaðan ökkla og einn með gervifót voru hlekkjaðir standandi og haldið vakandi þar til heilbrigðisstarfsfólk á vegum CIA úrskurðaði að þeir gætu ekki staðið lengur í fæturna.

Pyndingar eru meðal allra alvarlegustu glæpa og hafa verið skilgreindar svo af alþjóðasamfélaginu og í alþjóðalögum. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem Ísland og Bandaríkin eiga aðild að segir í 7. gr. að enginn maður skuli sæta pyndingum eða grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Um pyndingar er einnig fjallað í samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri og ómannúðlegri meðferð eða refsingu. Ísland og Bandaríkin eru bundin af þeim samningi en samkvæmt honum eru pyndingar algjörlega óafsakanlegar í hvaða tilgangi sem er og alþjóðasamfélaginu er falin mikil sameiginleg ábyrgð á því að koma í veg fyrir pyndingar og láta sækja þá til saka sem eru sekir um slíka glæpi.

Flutningsmenn þessarar tillögu telja afar brýnt að sú hræðilega meðferð á fólki sem lýst er í fyrrgreindri skýrslu verði fordæmd um heim allan og mælast til þess að Alþingi Íslendinga bregðist skjótt við og fordæmi þessi grimmdarverk með formlegum og opinberum hætti. Alþingi hefur áður, á 135. löggjafarþingi, fordæmt mannréttindabrot og ómannúðlega meðferð á föngum í búðum Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu sem sjá má í 107. máli á því þingi. Með þessari tillögu er lagt til að slík fordæming verði ítrekuð í ljósi nýrra upplýsinga sem fram hafa komið með hinni nýju skýrslu.

Í skýrslunni kemur fram að þær upplýsingar sem fengust með pyndingum voru aldrei notaðar til að koma í veg fyrir árásir eða yfirstandandi ógnir. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að CIA hafi vísvitandi og markvisst logið að stjórnmálamönnum og almenningi með því að gefa afar ónákvæmar upplýsingar til að fá leyfi til pyndinganna. CIA hefur jafnframt ranglega haldið því fram að enginn öldungardeildarþingmaður hafi verið á móti þeim. Þá kemur einnig fram að af þeim 119 mannverum sem vitað er að voru pyndaðar hafi í það minnsta 26 manneskjur ekkert brotið af sér.

Forseti. Enginn af þeim fjöldamörgu aðilum sem ástunduðu markvissar og skipulagðar pyndingar nema uppljóstrarinn og fyrrum leyniþjónustumaðurinn John Kiriakou hafa þurft að sæta ábyrgð fyrir gjörðir sínar, en hann sagði fyrst frá hrottafengnum aðferðum CIA við pyndingar árið 2007, aðferð sem kölluð er „waterboarding“. Ekki hefur tekist að þýða þessa aðferð við pyndingar á íslensku en hún er framkvæmd á þann veg að ísköldu vatni er hellt yfir andlit fanga til að líkja eftir drukknunartilfinningu, oft ítrekað.

John Kiriakou var dæmdur til 30 mánaða fangelsisvistar fyrir uppljóstranir sínar og sat hann í fangelsi þegar skýrsla leyniþjónustunefndar öldungadeildar bandaríska þingsins var birt síðla árs 2014. Honum var nýverið veitt heimild til að afplána síðustu mánuði refsingar sinnar í stofufangelsi heima hjá sér en honum misbýður, eins og fleirum, að þeir sem bera ábyrgð á pyndingum, bæði með stefnu og í verki, séu ekki einu sinni yfirheyrðir. Þessar aðferðir voru aldrei formlega viðurkenndar heldur gerðar í skjóli öfgastefnu fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, George Bush.

Mig langar að ljúka ræðu minni á orðum Johns Kiriakous um pyndingar, með leyfi forseta:

„Jafnvel þó að pyndingar mundu virka við yfirheyrslu ætti sú aðferð aldrei að vera viðurkennd. Ég er máske á öndverðum meiði við stefnu yfirvalda gagnvart pyndingum, en sögulega séð er ég réttum megin. Það eru ákveðin mörk sem maður fer aldrei yfir, ekki einu sinni í þjóðaröryggislegum skilningi. Pyndingar eru þar á meðal.“

Ég vona einlæglega að þingið þori og hafi dug í sér til að fordæma það sem kom fram í þessari mögnuðu og mjög svo óþægilegu skýrslu öldungadeildar Bandaríkjaþings og hvet þingmenn til að kynna sér hana. Ég ítreka að fleiri en aðeins þeim aðila sem sagði afdráttarlaust frá þessum pyndingum sé haldið til ábyrgðar. Ég legg til að tillagan fari til utanríkismálanefndar, forseti.