144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

meðferð einkamála.

462. mál
[19:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skýrir sig eflaust sjálft hjá jafn glöggum þingmönnum og hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur en ekki fyrir þeim sem hér stendur. Ég hygg raunar að hin upphaflegu ákvæði hafi í sjálfu sér kannski ekki verið nauðsynleg því að hinar almennu heimildir til flýtimeðferðar hafi dugað til flýtimeðferðar á þeim málum sem þetta átti að ná til.

Ég hef hins vegar skilið það þannig að meðferð mála hafi verið flýtt á þessu ári þrátt fyrir að þetta ákvæði sé í sjálfu sér úr gildi fallið. Meðal annars hafa gengið hratt og vel dómar í héraði í verðtryggingarmálum tveimur fyrr á þessu ári þó að þessu ákvæði væri ekki lengur til að dreifa og þau mál séu þegar í áfrýjunarferli til Hæstaréttar, og sjálf prófmálin gangi þá væntanlega núna á vorinu algerlega óháð þessum flýtimeðferðarákvæðum.

Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort einhver þörf sé á því að framlengja ákvæðin og í hverju sú þörf felst, hvort meiri hluti nefndarinnar hafi rætt það við Hæstarétt, við dómstólaráð eða við Héraðsdóm Reykjavíkur eða aðra héraðsdóma að það væri ótvírætt þörf á því að standa í þeirri framlengingu.

Að öðru leyti vildi ég bara óska þess að málið gengi til nefndarinnar á milli umræðna.