144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

meðferð einkamála.

462. mál
[19:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt að rifja upp tilganginn með upphaflega ákvæðinu þegar það var samþykkt hér í þinginu. Í því frumvarpi og í þeirri afgreiðslu þingsins birtist sá vilji Alþingis að sjá til þess að allir frestir í málum séu eins stuttir og mögulegt er. Það er auðvitað löng forsaga að þessum málum öllum sem leiða af þeim atburðum sem hér urðu í efnahagslífinu á sínum tíma, en með þessu máli erum við einfaldlega að leggja það fram og þann vilja þingsins, sem við vonumst til að verði staðfestur hér í þingsal, að þessi flýtimeðferð sé enn í gildi og það sé alveg ljóst að það er þingið sem leggur áherslu á það.

Það er auðvitað Alþingi sem fer með löggjafarvaldið en ekki þeir aðilar sem hv. þingmaður taldi hér upp. Við fengum nokkra aðila á fund nefndarinnar meðan við vorum að meta þörfina á því að leggja þetta fram að nýju, þetta átti sé stað hér í desember. Þetta mál var síðan samið út af þeim sem hér ráða um þinglokin, þeim sem hér eru í þingflokksformennsku eins og hv. þm. Helgi Hjörvar veit vel.

Engu að síður er það mat meiri hluta nefndarinnar að rétt sé að þessi vilji þingsins birtist með þessum hætti og að þess vegna verði þessi heimild til bráðabirgða framlengd til næstu áramóta.