144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

meðferð einkamála.

462. mál
[19:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að þingmenn eða þingið lýsi vilja til þess að eitthvað gangi fljótt og vel, en ég var bara að spyrja um hina praktísku þýðingu þess að vera að lögfesta einhver ákvæði eins og þessi. Dómstólarnir hafa heimildir til þess að flýta málum. Þeir hafa flýtt málum eins og þessum verðtryggingarmálum og haga öllum umbúnaði þannig að hægt verði að flytja þau og fá dóma í þeim eins fljótt og unnt er.

Hvað frestun viðvíkur getur löggjafinn ekki stytt þá fresti, hvorki þá sem sóknaraðilar né varnaraðilar eiga lögum samkvæmt, því að það eru einfaldlega borgaraleg réttindi þeirra sem sækja málin og verja að þeir hafa ákveðna fresti sem þeir geta nýtt og sóst eftir. Við getum ekki stytt þá fresti, hvorki með þessu ákvæði né nokkru öðru.

Ég heyri hvað þingmaðurinn segir, að hún sjái þetta sem viljayfirlýsingu þingsins um að flýta eigi þessum málum, en hefur það nokkurt lagalegt gildi í sjálfu sér? Ekki hefur verið byggt á þessu ákvæði til þessa og ég sé ekki að það verði heldur það sem eftir lifir þessa árs, því að þegar eru helstu prófmálin í þessum efnum á leið í Hæstarétt og búið að dæma um þau í héraði að gildandi lögum án þessa ákvæðis.