144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

heimild fulltrúa Vestnorræna ráðsins til að senda fyrirspurnir til ráðherra.

480. mál
[19:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. framsögumanni Unni Brá Konráðsdóttur fyrir framsögu á tveimur þingsályktunartillögum um samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands, annars vegar um leiðir til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum og hins vegar um að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins að senda fyrirspurn til ráðherra. Ég tek heils hugar undir báðar þingsályktunartillögurnar og vona, eins og hv. þingmaður nefndi, að þær fái góða umræðu í hv. utanríkismálanefnd.

Mig langar af þessu tilefni að ræða aðeins málefni vestnorrænna ríkja og Vestnorræna ráðsins þar sem við í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins erum nýkomin frá þemaráðstefnu sem haldin var á Grænlandi nú á dögunum. Þar var aðalþemað mótun sameiginlegrar stefnu Vestur-Norðurlanda eða vestnorrænna ríkja á norðurslóðum. Mörg fróðleg og áhugaverð erindi voru flutt á þeirri ráðstefnu. Einnig var rætt um fríverslunarsamning milli Vestur-Norðurlanda og tækifæri og ógnanir sem fylgja aukinni skipaumferð um norðurslóðir. Það leikur enginn vafi á því að aukin verslun á milli vestnorrænu landanna getur styrkt efnahag þeirra á margvíslegan hátt en stærsta vandamálið í því samhengi er að líkindum hversu keimlík framleiðsla landanna er. Mikilvægasta verslunarvara okkar er fiskafurðir og það mun í sjálfu sér ekki verða grundvöllur fyrir milliríkjaverslun á Vestur-Norðurlöndum sökum þess að á því sviði er hvert land sjálfu sér nægt.

Það eru aðrir kostir í boði varðandi verslun okkar á milli, eins og á sviði samgangna, ferðamennsku og uppbyggingar og viðhalds grunngerðar samfélagsins, og mjög brýnt að nýta sér það. Um þessa hluti voru fluttir fyrirlestrar á þemaráðstefnunni. Hvert vestnorrænu landanna hefur vissulega sitt eigið andlit og tungumál og sína rödd. Við viljum að sjálfsögðu varðveita sérstöðu okkar og sjálfsmynd, en jafnframt hljótum við að gangast við því að vel heppnaður verslunarvettvangur gæti styrkt stöðu okkar á alþjóðavettvangi þar sem við eigum stundum erfitt með að vekja athygli á okkur sökum fámennis.

Þess vegna er það mitt mat að á sameiginlegum verslunarvettvangi beri að setja umhverfismál í öndvegi og rétt fólksins til þess að njóta ávaxtanna af auðlindum sínum og vinnu sinni, og að náttúran sé grundvöllur tilveru okkar. Hinni viðkvæmu heimskautanáttúru er nú þegar ógnað vegna hlýnunar loftslags á heimsvísu sem stafar af ósjálfbærum lifnaðarháttum okkar mannanna. Sameiginlegt verslunarráð vestnorrænu landanna ætti undir öllum kringumstæðum að vinna gegn þeirri mjög svo óheppilegu þróun. Samtími okkar einkennist af miklum félagslegum ójöfnuði varðandi tekjur og almennt í samfélagi okkar, sem kemur oftar en ekki í ljós í heilbrigðiskerfinu, í skólanum meðal barna okkar og meðal hinna eldri á hjúkrunarheimilum eða í þjónustu við aldraða. Ef vel tekst til með sameiginlegt verslunarráð vestnorrænna landa ætti að nýta það líka til að leita lausna á samfélagsvanda sem stafar af mengun og ósjálfbærri ráðstöfun á auðlindum og ójöfnuði í tekjum. Ef vel tekst til stuðlar það að ábyrgri nýtingu auðlinda og sýnir ábyrgð á umhverfismálum. Tekjujöfnuður yrði settur í forgang og við mundum styðja það heilshugar.

Stefna Íslands í málefnum norðurslóða og sameiginleg vestnorræn stefna var samþykkt með þingsályktunartillögu árið 2011, sem myndar í aðalatriðum rammann utan um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Þar er dregið fram hversu mikilvægt er að litið sé á norðurslóðir sem órofna vistfræðilega heild. Ég lít svo á að mjög mikilvægt sé að gæta að því sjónarmiði í vestnorrænu samstarfi og við mótun sameiginlegrar vestnorrænnar stefnu. Fiskveiðar og nýting auðlinda hafsins eða landgrunns landa okkar er nú þegar mjög mikilvæg, eða getur orðið það í framtíðinni. Við getum horft til Grænlands í því sambandi þar sem mikið hefur verið rætt um námuvinnslu og eru skiptar skoðanir í þeim efnum. Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna myndar grundvöll fyrir stjórn strandríkjanna á þeim svæðum sem þau bera ábyrgð á og skilgreinir réttindi þeirra. Nota ætti sáttmálann við lausn deilumála og við mótun sameiginlegrar stefnu um nýtingu sjávarauðlinda eða auðlinda á hafsbotni.

Ályktun Alþingis felur það einnig í sér að setja beri réttindi hinna upprunalegu íbúa norðurslóða í forgang, og ég tel það mjög mikilvægt, og að tryggt skuli að engar ákvarðanir verði teknar um stöðu þeirra eða framtíð án hlutdeildar þeirra sjálfra. Okkur er það vafalaust öllum ljóst hvílík ógn norðurslóðum stafar af heimshlýnuninni. Það var ekki að ástæðulausu að því var slegið föstu í ályktun Alþingis frá 2011 að Íslandi og öðrum samfélögum á vestnorræna svæðinu beri að vinna gegn heimshlýnun með því meðal annars að gera kröfu um að aukin atvinnustarfsemi innan vestnorrænu landanna og hugsanlegir nýir atvinnuvegir verði ekki til þess að auka á loftslagsvandann.

Okkur er ljóst hversu viðkvæmt umhverfi okkar er og okkur er jafnframt ljóst að ef samfélag okkar á að lifa af verðum við að taka tillit til bæði jurta- og dýraríkisins, það segir sig sjálft. Við þurfum einnig að minnast þess að lifnaðarhættir fólks á norðurslóðum fela í sér ævaforna þekkingu og kunnáttu í því hvernig maðurinn lifir af við erfið skilyrði. Okkur ber skylda til að varðveita þá vitneskju til framtíðar og verðum við því að velja bestu leiðina til þess sem er að tryggja og viðhalda lífi meðal íbúa norðurslóða. Það er verkefni framtíðarinnar. Að því vinna vestnorrænu þjóðirnar auðvitað á ýmsan hátt og nýta sér þennan vettvang til þess.

Þegar að því kemur að móta nýja sameiginlega stefnu um til dæmis hernaðarmannvirki og herstarfsemi á norðurslóðum ættum við að setja okkar eigin hagsmuni ofar hagsmunum stórveldanna. Ég held að það sé mjög brýnt, þótt þetta séu litlar þjóðir. Við ættum að forðast að leyfa þeim að færa varnarlínu sína í heimkynni okkar með því að reisa þar hernaðarmannvirki í þágu þeirra sem eilíflega berjast um völd og áhrif á heimsvísu og horfa til þess að viðbúnaður okkar einskorðist við öryggisráðstafanir í þágu þessara landa og í þágu sjófarenda og almennra borgara. Einnig þarf að horfa til þess að uppbygging á norðurslóðum og í vestnorrænu löndunum sé sjálfbær til framtíðar.

Ég ætla ekki að hafa þetta innlegg mitt lengra. Ég vildi aðeins fá að koma inn á þessa hluti vegna þess að þetta samstarf er virkilega mikilvægt og hefur leitt af sér ýmsa góða hluti þótt oft finnist manni boðleiðirnar langar þegar kemur að þeim tillögum sem samþykktar hafa verið á þessum vettvangi, þetta mjakast þó alltaf eitthvað áfram. Það skiptir máli. Ég tel að við eigum að leggja mikla vinnu í þetta og styðja nágranna okkar á Grænlandi og í Færeyjum á allan þann hátt sem við getum og einnig þiggja ráð þeirra, því að við erum auðvitað jafnt að læra (Forseti hringir.) ýmsa hluti af þeim.