144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

niðurstaða skýrslu um endurreisn bankanna.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég er sammála því mati hv. þm. Brynjars Níelssonar að tilefni sé til að kanna þessi mál áfram, tilefni sé til að rannsaka þau á nákvæmlega sama hátt og ég hef áður lýst því að tilefni væri til slíks. Ég hef ekki fullyrt að lög hafi verið brotin í þessu samhengi. Ég varð hins vegar mjög var við það að hv. fyrirspyrjandi og samherjar hans vildu mjög fljótlega snúa umræðunni upp í spurninguna um lögbrot eða ekki vegna þess að þeir treystu sér ekki í umræðuna um það sem þetta snýst raunverulega um, pólitískar ákvarðanir, rangar og skaðlegar pólitískar ákvarðanir, ákvarðanir sem miðuðu að því að koma til móts við kröfur kröfuhafa bankanna.

Það þarf ekki að líta til þeirra gagna sem Víglundur Þorsteinsson lagði fram til að fullyrða þetta. Það nægir að vitna beint í skýrslu fyrrverandi fjármálaráðherra um endurreisn bankanna, skýrslu sem var laumað hér inn í þingið daginn fyrir páskafrí árið 2011. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eftir því sem tíminn leið frá falli bankanna fór óánægja kröfuhafa gömlu bankanna, ekki síst þeirra erlendu, vaxandi. Sjónarmið þeirra var að lagt væri upp með áætlun sem væri einhliða, ekki væri gætt sjónarmiða þeirra og því yrðu þeir óhjákvæmilega að leita réttar síns hjá þar til bærum yfirvöldum. Þrátt fyrir að þetta sjónarmið væri ekki réttmætt var orðið ljóst í ársbyrjun 2009 að gera yrði breytingar á upprunalegum áætlunum um endurreisn bankanna.“

Með þetta í huga ákvað ríkisstjórnin í febrúar 2009 að koma á formlegum samningaviðræðum milli nýju bankanna og ríkisins sem eigenda annars vegar og skilanefnda og kröfuhafa bankanna hins vegar. Svo er því lýst hver hafi verið markmið fulltrúa ríkisins í þessum viðræðum og tekið fram að það hafi verið að sætta kröfuhafa bankanna þannig að þeir gætu betur við unað.